Hugurinn er stöðugt við stríðið

„Á tímum sem þessum er ég mjög þakklát fyrir að hafa mikið að gera og starfa hjá eins spennandi fyrirtæki og OpenAI. Það er nefnilega erfitt að láta sér annt um nokkurn hlut. Hugurinn er stöðugt við stríðið. Flestir af mínum nánustu ættingjum búa ýmist í Úkraínu eða Rússlandi og ég reyni allt sem ég get til að styðja þá í hvívetna. Ég þekki líka marga innan stjórnsýslunnar í Bandaríkjunum sem fylgjast grannt með gangi mála og því miður sé ég ekki að þessu ömurlega stríði ljúki í bráð.“

Þetta segir Anna Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá bandaríska fyrirtækinu OpenAI, sem var hér á landi í vikunni. Móðir Önnu var frá Úkraínu og hún fæddist í Pétursborg í Rússlandi, þar sem hún bjó til 11 ára aldurs.

Þaðan flutti hún með foreldrum sínum til Þýskalands og síðar Bandaríkjanna. Þegar Persafóastríðið braust út bjó hún í Kúveit en flutti um leið aftur til Bandaríkjanna.

Dáist að seiglunni

Hvernig hefur þitt fólk í Úkraínu það?

„Ég dáist að þeim og seiglunni sem þau hafa sýnt. Auðvitað get ég ekki sagt að fólk hafi það gott en Úkraínumenn vita að þeir hafa réttlætið sínum megin og að heimurinn styður við bakið á þeim. Það er ákveðin huggun harmi gegn. Fólk þráir sitt venjulega líf aftur og sama gildir um Rússa en ég á marga vini þar sem eru aktívistar, blaðamenn eða harma það sem hefur gerst. Þeim líður ömurlega enda geta þeir ekkert gert.“

Meturðu það svo að meirihluti rússnesku þjóðarinnar sé á móti stríðinu? 

„Okkur er sagt að meirihluti Rússa styðji stríðið en ég trúi því ekki að það sé rétt. Rússneskur almenningur hafði það ekkert sérstaklega gott fyrir stríðið og flestir láta bara hverjum degi nægja sína þjáningu. Einhverjir kokgleypa líka áróður stjórnvalda. Enn er eitthvað um mótmæli en fjölmargir hafa yfirgefið landið og fólk sér upp til hópa ekki fyrir sér að neitt sé að fara að breytast. Það er erfitt að virkja fólk til mótstöðu þegar vonin er ekki lengur fyrir hendi.“

Nánar er rætt við Önnu Makanju í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert