820 kg af kókaíni á norskum lager

Hluti þeirra 1.200 kílógramma sem lögregla í Brandenburg lagði hald …
Hluti þeirra 1.200 kílógramma sem lögregla í Brandenburg lagði hald á. Líklegt er talið að þau 820 kg sem fóru til Óslóar hafi hafnað þar fyrir handvömm. Ljósmynd/Þýska lögreglan

Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er eftir að norska tollgæslan fann 820 kílógrömm af kókaíni á lager norska bananainnflytjandans Bama í Ósló að fram kominni ábendingu frá þýskri tollgæslu vegna máls þar í landi.

Er hér um að ræða langmesta magn efnisins sem hald hefur verið lagt á í Noregi frá upphafi vega en stærsti kókaínfundur fram að þessum var 153 kg í nóvember 2015. Ábendingin frá Þýskalandi barst í kjölfar þess er tollgæsla þar í landi fann 1.200 kg af efninu í ávaxtakössum í Brandenburg sem einnig er það mesta sem náðst hefur í einu lagi þar í landi.

Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, staðfestir kókaínfundinn við norska fjölmiðla og segir götuverðmæti efnanna vera mörg hundruð milljónir norskra króna sem þá hleypur á milljörðum íslenskra króna.

Bama ekki talið tengjast málinu

Það voru tollverðir sem fóru á vettvang í húsakynni Bama eftir að þýsk starfssystkini þeirra létu vita af málinu og fundu þeir efnið í nokkrum kössum á lagernum. Hefur norska ríkisútvarpið NRK það eftir lögreglu að ekki leiki grunur á að fyrirtækið, sem flutt hefur banana til Noregs síðan 1905, eða starfsfólk þar tengist málinu.

Hluti bananasendingarinnar í Brandenburg sem varð kveikjan að ábendingu til …
Hluti bananasendingarinnar í Brandenburg sem varð kveikjan að ábendingu til norsku tollgæslunnar. Ljósmynd/Þýska lögreglan

„Ég get staðfest að hald var lagt á efnið í húsnæði Bama í Ósló,“ segir Pia Gulbrandsen, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Ósló. „Þetta er mjög alvarlegt mál sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu og munum við þess vegna ekki veita frekari upplýsingar eins og er,“ segir hún enn fremur.

Lögregla veit enn sem komið er ekki hver veita átti efninu viðtöku en ein kenning hennar er að sendingin hafi farið til Noregs fyrir misgáning, endanlegur áfangastaður hafi átt að vera annar. Metlid deildarstjóri segir lögreglu gera þær upplýsingar opinberar þar sem hún gangi út frá því að nú leiti einhver efnisins. Lögregla vilji gefa þau skilaboð út að kókaínið sé nú í hennar höndum.

Gott samstarf við Þjóðverja

„Magnið sem nú hefur verið lagt hald á er meira en tvöfalt það sem tollgæslan hefur tekið í samanlögðu síðustu fimm ár,“ segir Tim Gurrik, talsmaður norsku tollgæslunnar, og lætur þess enn fremur getið að samstarf við þýska löggæslu hafi verið gott. Þar í landi hefur lögreglan upplýst í fréttatilkynningu að efnið hafi komið með sendingu sjóleiðis frá Ekvador en svo virðist sem hluti sendingarinnar, sem hefur þá verið tvö tonn í heildina, hafi farið í land í Ósló.

Tim Gurrik segir magnið meira en tvöfalt það sem norska …
Tim Gurrik segir magnið meira en tvöfalt það sem norska tollgæslan hefur tekið samanlagt síðustu fimm ár. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Þrátt fyrir að lögregla telji hugsanlegt að það sem fannst í Ósló hafi farið til Noregs fyrir mistök kveðst Metlid ekki vilja útiloka að svo sé ekki og að baki sendingunni standi stór fíkniefnahringur með tengsl við Noreg. „Við höldum rannsókninni áfram og okkur er það mikilvægt að hún fari fram með alþjóðlegu samstarfi,“ segir deildarstjórinn.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert