Óásættanlegur troðningur í Eurovision-höllinni

M&S Bank-leikvangurinn þar sem Eurovision mun fara fram í nóvember.
M&S Bank-leikvangurinn þar sem Eurovision mun fara fram í nóvember. Ljósmynd/Sonja Sif

„Óásættanlegur“ troðningur og mikil mannþröng var á M&S Bank-leikvanginum í Liverpool í nóvember á síðasta ári á tónleikum Jamie Webster en þar mun Eurovion fara fram í maí.

Margir tónleikagesta kvörtuðu yfir því að öryggi þeirra væri ógnað á einu svæðinu í tónleikahöllinni.

Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Rannsókn sem tónleikahöllin lét gera sýndi fram á að troðningur hefði myndast þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman þegar að greiðslukerfi á barnum lá niðri. Þá mynduðust langar raðir við tvo bari sem blönduðust saman við raðir fyrir salernið. 

Um einangrað atvik að ræða

Í tilkynningu frá tónleikahöllinni segir að um einangrað atvik hafi verið að ræða og að töluvert færri verði viðstaddir á Eurovision samanborið við tónleikana. Búist er við um sex þúsund manns á Eurovision vegna stærðar sviðsins. Á hefðbundnum tónleikum í höllinni er gert ráð fyrir um ellefu þúsund manns. 

Rekstraraðilar leikvangsins, ACC Liverpool, segja að farið hafi verið yfir skipulag og ferla í tengslum við mannfjöldaflæði og það endurskoðað. Jafnframt var áformum um nýjan bar og salerni flýtt fyrir Eurovision.

Gestir á tónleikunum í nóvember lýstu því í samtali við BBC hvernig sumir miðahafar hættu við að fara á tónleikana þegar þeir sáu hvernig ástandið var. Aðrir komu til með að flýja leikvanginn vegna þrengsla. Þrátt fyrir troðninginn sem myndaðist slasaðist enginn á tónleikunum þó að margir hafi lýst yfir áhyggjum um öryggi sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert