Hvaldimir skaut upp kollinum við Svíþjóð

Hvaldimir skaut upp kollinum í Noregi á sunnudag.
Hvaldimir skaut upp kollinum í Noregi á sunnudag. AFP

Mjaldurinn Hvaldimir, sem grun­ur leik­ur á að rúss­neski her­inn hafi verið með í þjálf­un til njósn­astarfa, skaut upp kollinum við Svíþjóð í gær, sunnudag. Samtök sem fylgst hafa með mjaldrinum greindu frá því að Hvaldimir hefði sést undan ströndum Hunnebrostrand, við suðvesturströnd landsins. 

Hvalurinn sást fyrst undan ströndum Noregs árið 2019 og vakti þá athygli því hann er með ólar utan um sig. Þar sást hann mjög norðarlega, við Finnmörk, og næstu þrjú árin ferðaðist hann hægt og rólega niður norðurhluta Noregs. 

Fór hann meðfram ströndinni en þegar hann var hálfnaður á suðurleið sinni flýtti hann för sinni og er nú kominn upp til Svíþjóðar. Þessu greina OneWhale-samtökin frá. 

Í makaleit eða einmana?

„Þessi för hans gæti verið hormónadrifin, hann gæti verið í makaleit. Eða hann gæti verið einmana, mjaldrar eru félagsverur, þannig kannski er hann bara að leita að öðrum mjöldrum,“ sagði Sebastian Strand sjávarlíffræðingur í samtali við AFP. 

Talið er að hvalurinn, sem Norðmenn gáfu nafnið Hvaldimir, sé um 13 til 14 ára gamall. Strand segir mikla hormónastarfsemi í gangi hjá mjöldrum á þessum aldri. 

Hvaldimir er ekki talinn hafa fundið aðra mjaldra á leið sinni, síðan hann sást í apríl 2019 við Noreg.

Strand telur að Hvaldimir hafi verið við góða heilsu undanfarin ár. Hann hafi getað étið lax við strendur Noregs og nærst vel. Nú segir hann hins vegar að vísindamenn hafi áhyggjur af því hvort hann finni nægilegt æti við strendur Svíþjóðar. Er hann sagður hafa tapað þyngd nú þegar. 

Mjaldrar geta orðið um sex metra langir og ná um 40 til 60 ára aldri. Náttúruleg heimkynni þeirra eru norðurhöf, í kringum Grænland, Norður-Noreg og Rússland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert