„Í landinu hefur alltaf ríkt togstreita“

Eiríkur Bergmann telur stöðu Er­dog­an enn streka.
Eiríkur Bergmann telur stöðu Er­dog­an enn streka. Samsett mynd

Endurkjör Recep Tayyip Er­dog­an Tyrklandsforseta kom ekki á óvart og er staða forsetans enn sterk þrátt fyrir nauman sigur í gær. Þó er ljóst að mikil togstreita ríki á milli tveggja hópa í landinu, þeirra sem vilja að Tyrkland líkist meira vestrænu lýðræðisríki annars vegar og hins vegar þeirra sem að vilja íslamskra stjórnarfar.

Þetta er mat Eiríks Bergmanns,  pró­fess­ors í stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann á Bif­röst.

Erdogan hlaut 52,14% at­kvæða í forsetakosn­ing­un­um í gær en mót­fram­bjóðandi hans, Kemal Kilicd­aroglu, hlaut 47,86% at­kvæða. 

Ríkinu beitt

„Kosningarnar eru undir ákveðnum áhrifum forsetans. Það er ýmislegt í kringum þær sem kannski getur orðið honum vilhallt,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Spurður hvernig þær séu undir áhrifum forsetans segir Eiríkur: „Hvernig ríkinu er beitt í umræðum og öðru slíku. Það hafa kannski ekki komið fram tiltekin atriði um að kjörið hafi ekki verið fyllilega frjálst en ríkinu er beitt af miklum þunga fyrir sitjandi forseta.“

Óvenjulegt að kjósa þurfi tvisvar

Kosningin í gær var seinni um­ferð for­seta­kosn­inga í land­inu. Í fyrri um­ferðinni, sem fór fram 14. maí, náðu hvorki Er­dog­an né at­kvæðamesti mótfram­bjóðandi hans, Kemal Kilicd­aroglu, til­skildu lág­m­arki at­kvæða eða 50 pró­sent greiddra atkvæða.

Eiríkur segir mjög óvenjulegt að boða þurfi til annarrar umferðar forsetakosninga í landinu en þó sé ekki hægt að segja að staða Edrogans sé ekki sterk.

„Hann hefur aldrei áður, í seinni tíð, fengið aðra eins áskorun, eins og var í þessari kosningu. Hans vald var alveg óskorað þar til núna. Þegar hann er á endanum kosinn þá er kannski ekki hægt að segja að staða hans sé ekki sterk, hún er það augljóslega, en þetta stóð auðvitað tæpt. Það er í sjálfu sér er að mörgu leyti merkilegt.“

Verðbólga og togstreita

Telur Eiríkur fordæmalausa verðbólgu og togstreitu milli tveggja hópa í landinu meðal annars skýra það að boða hafi þurft til annarra kosninga.

„Það er ekki skrítið að það  einhver óánægja í ríkinu. Tyrkland hefur verið að fjarlægjast Vesturlönd hratt. Áskorunin gekk út á það að snúa við þeirri þróun. Tyrkir eru bara klofnir í þeim efnum,“ segir Eiríkur og bætir við:

„Stórir skarar fólks fylkja sér að baki hinum sterka leiðtoga en aðrir hópar eru eindregið andvígir öllu því sem að hann stendur fyrir.“

Mæri tveggja heima

Bendir Eiríkur á að Tyrkland sé mjög sérstakt land þar sem tveir menningarheimar skarast.

„Við þurfum að átta okkur á því að Tyrkland er sérstakt land. Þetta eru mæri tveggja heima, Vesturlanda annars vegar og Mið-Austurlanda hins vegar. Þetta eru mæri tveggja mjög ólíkra menningarheima og þar hefur alltaf ríkt togstreita.

Það eru öfl sem vilja að Tyrkland verði eins og frjálsræn vestræn lýðræðisríki og svo eru önnur öfl sem að vilja sjá íslamskra stjórnarfar og ríki af því tagi sem er hefðbundnara í Mið-Austurlöndunum. Þarna er alltaf tog á milli og þessi togstreita endurspeglaðist ágætlega í þessari kosningabaráttu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert