Saka Evrópusambandið um vanrækslu

Mynd ú flóttamannabúðum á eyjunni Chios.
Mynd ú flóttamannabúðum á eyjunni Chios. AFP

Alþjóðlega björgunarnefndin (IRC) hefur sakað Evrópusambandið um grófa vanrækslu gagnvart afgönsku flóttafólki. Aðeins 0,1 prósent þeirra Afgana sem þarfnast varanlegrar verndar hlutu endurbúsetu í Evrópu árið 2022. 

Samkvæmt skýrslu IRC dúsar stór meirihluti afganskra hælisleitenda í tjaldbúðum á grískum eyjum, en búðirnar hafa ítrekað verið gagnrýndar fyrir ómannúðleg kjör og hefur þeim verið líkt við fangabúðir. 

Um 270.000 Afganir biðu eftir endurbúsetu árið 2022, en aðeins 271 einstaklingur hlaut búsetustað. 

Brostin loforð

Endurbúsetuferlið felur í sér flutning flóttafólks frá sínu hælislandi til annars lands sem hefur samþykkt að taka á móti því og veita því endurbúsetu. Ferlið er meðal annars gert í þeim tilgangi að létta á álagi í löndum við Miðjarðarhafið, sem eru í flestum tilfellum fyrsti áfangastaður fólks á flótta. 

Í skýrslunni kemur fram að aðildarríkjum ESB hafi endurtekið mistekist að standa við loforð um endurbúsetu.

Þýskaland hét því t.d. árið 2021 að taka á móti 1.000 Afgönum í mánuði hverjum, en samkvæmt skýrslunni hefur enginn Afgani hlotið endurbúsetu, samkvæmt því fyrirkomulagi. Ítalía hefur einnig brotið sitt loforð um endurbúsetu og hefur einungis tekið á móti helming þess fjölda sem upprunalega var lofað.

Þess má þó geta að bæði löndin hafa tekið á móti talsvert fleira fólki en mörg önnur aðildarríki ESB. Árið 2022 voru um 286.000 Afganir skráðir í landið samkvæmt hagstofu, en margir hafa kvartað yfir því að ferlið geti tekið mörg ár í senn. 

Mynd úr flóttmannabúðunum Moria á eyjunni Lesbos. Búðirnar brunnu til …
Mynd úr flóttmannabúðunum Moria á eyjunni Lesbos. Búðirnar brunnu til grunna árið 2020, en nýjar tjaldbúðir opna á þessu ári. AFP

Dæmin sýna að Evrópa getur tekið á móti fólki

IRC hefur fordæmt aðgerðarleysi ESB-aðildarríkjanna í garð flóttafólks frá Afganistan. Í samtali við The Guardian sagði yfirmaður IRC, David Milliband, skýrsluna varpa ljósi á vanrækslu aðildarríkja ESB við Afgana, sem skapi enn meira óöryggi og hættu fyrir hælisleitendur. 

Þá sagði hann dæmi sýna, í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, að Evrópa hafi tök á að taka við fólki á flótta með opnum örmum, en aðildarríki ESB tóku á móti átta milljónum Úkraínumanna, hratt og örugglega. 

„Það er einfaldlega ekkert sem réttlætir öðruvísi framkomu og meðferð á Afgönum og öðrum sem eru neyddir til að flýja heimili sín,“ sagði Milliband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert