Báru ekki ábyrgð á kórónuveirusmiti

Ferðalangurinn ferðaðist til Ischgl í Austurríki.
Ferðalangurinn ferðaðist til Ischgl í Austurríki. AFP/Joe Kalmar

Alríkisdómstóll í Austurríki hefur sýknað austurríska ríkið af kröfum þýsks ferðamanns sem smitaðist af Covid-19 í ársbyrjun 2020.

Ferðalangurinn krafði ríkið um skaðabætur og viðurkenningu á að það bæri ábyrgð á skaðanum sem hann hlaut af smitinu. Taldi hann ríkið bera ábyrgð á skaðanum vegna aðgerðarleysis þess við að sporna gegn útbreiðslu Covid-19.

Málavextir eru þeir að þýskur ferðamaður fór í skíðaferð til bæjarins Ischgl í Austurríki þann 7. mars 2020 og ferðaðist til nokkurra skíðasvæða. Að ferðinni lokinni, sex dögum síðar, fer ferðalangurinn að finna fyrir Covid-19 einkennum.

Of sein að bregðast við faraldrinum

Sjálfstæð rannsóknarnefnd rannsakaði meðal annars viðbrögð stjórnvalda í Tíról við Covid-19 og komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld brugðust of seint við útbreiðslu faraldursins. Ekkert benti þó til þess að sérstakir hagsmunir hafi ráðið för, pólitískir né viðskiptalegir.

Röng yfirlýsing gerði ríkið ekki skaðabótaskylt

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld í Tíról hafi veitt rangar upplýsingar með yfirlýsingu 5. mars 2020 um að íslenskir ferðamenn sem ferðuðust frá München til Reykjavíkur og smituðust síðar af Covid-19 hefðu smitast í flugvélinni en ekki í Tíról.

Aftur á móti sagði dómstóllinn að tilkynningin hafi verið varfærnisleg og því hafi hún ekki geta skapað bótagrundvöll á hendur ríkisins. Orðalag yfirlýsingarinnar var á þá leið að matið sem um ræddi væri byggt á fyrstu mögulegu upplýsingum og að frekari upplýsingar væru væntanlegar.

Niðurstaðan vonbrigði

Neytendasamtök Austurríkis stóðu fyrir málsókninni og kvaðst formaðurinn niðurstöðuna vera mikil vonbrigði. Fólk hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna aðgerðarleysis ríkisins. Samtökin íhuga stöðu sína og hver næstu skref séu í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert