Hagur NATO að fá Svía inn

Breski utanríkisráðherrann James Cleverly, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Wopke Hoekstra, …
Breski utanríkisráðherrann James Cleverly, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Wopke Hoekstra, utanríkisráðherra Hollands, og Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, á fundinum í morgun. AFP/Javad Parsa

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins NATO, segir það hag bandalagsins að fá Svíþjóð þar inn sem aðildarríki svo fljótt sem verða megi og um leið sé það Tyrklandi í hag en Tyrkir hafa verið þrándur í götu aðildarumsóknar Svía.

Tuttugu og fimm utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna funda nú í Ósló í Noregi í aðdraganda stórfundar bandalagsins í Vilníus í Litháen í júlí.

Kveðst Stoltenberg „í nánustu framtíð“ vera á leið til Ankara í Tyrklandi til að funda þar með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta um aðildarumsókn Svía en Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, kveður landið hafa uppfyllt allar skyldur umsóknarríkis. Lét Billström þau orð falla á leið til fundarins í Ósló í morgun að hvort tveggja Bandaríkjamenn og Norðmenn ynnu að því að greiða leið Svía inn í NATO.

Mikilvægustu ákvarðanir í 200 ár

„Við finnum glöggt fyrir stuðningi úr fleiri áttum en teljum sérstaklega mikilvægt að Joe Biden Bandaríkjaforseti og Anthony Blinken utanríkisráðherra annars vegar og Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, hins vegar hafa látið í ljós skýran stuðning,“ sagði Billström.

Enn fremur kvað hann Svía nú taka sínar mikilvægustu ákvarðanir á sviði öryggismála í 200 ár og lagði sérstaka áherslu á að í dag, 1. júní, tækju ný hryðjuverkalög gildi í Svíþjóð sem væru að hluta til viðbrögð við kröfum Tyrkja í garð Svía.

„Nú er tímabært að Tyrkland og Ungverjaland gangi til afgreiðslu um málefni aðildarumsóknar Svía,“ sagði sænski ráðherrann og klykkti út með að umsóknarferlið hefði gengið hratt þrátt fyrir andstöðu Tyrkja. „Þetta var aldrei spretthlaup heldur maraþon og nú sjáum við endamarkið.“

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert