Fyrst kvenna kosin í embættið

Celeste Saulo kát þegar hún hlaut kosningu á alþjóðaveðurfræðiþinginu í …
Celeste Saulo kát þegar hún hlaut kosningu á alþjóðaveðurfræðiþinginu í gær. AFP/Fabrice Coffrin

Celeste Saulo var í gær kosin framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (e. WMO), fyrst kvenna.

Saulo hlaut kosningu á alþjóðaveðurfræðiþinginu sem var haldið í 19. skipti í Genf í Sviss. Hlaut hún tvo þriðju greiddra atkvæða og tekur við embætti 1. janúar á næsta ári.

Saulo er núverandi varaframkvæmdastjóri stofnunarinnar en samhliða því hefur hún verið forstjóri argentísku veðurfræðistofunnar frá árinu 2014. Hún er með doktorspróf í veðurfræði frá Háskólanum í Buenos Aires í Argentínu.

Stofnunin var stofnuð árið 1953 og heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar. Aðildarríkin eru samtals 193 og er Ísland meðal þeirra. Stofnunin gegnir því hlutverki að fylgjast með þróun veðurfars og loftslags um allan heim. Höfuðstöðvar hennar eru í Genf þar sem þingið fór fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert