Árekstur í Ironman varð manni að bana

Slysið varð við Ironman þríþrautarkeppni. Mynd úr safni.
Slysið varð við Ironman þríþrautarkeppni. Mynd úr safni. Ljósmynd/Chris McCormack

Ökumaður mótorhjóls sem flutti myndatökumann sem var að störfum í tengslum við Ironman þríþrautarkeppni í Þýskalandi lést eftir að hafa lent í árekstri við hjólreiðamann í keppninni.

Atvikið átti sér stað í borginni Hamborg í dag. Ástæða árekstursins liggur ekki fyrir.

Ökumaðurinn var sjötugur og lést á slysstað. Keppandinn, sem er 26 ára, slasaðist alvarlega og var fluttur á sjúkrahús. Myndatökumaðurinn á mótorhjólinu varð fyrir verulegu áfalli að sögn lögreglu og fékk læknisaðstoð.

Lögregla lokaði veginum

Þýska sjónvarpsstöðin ARD hætti umfjöllun sinni um þríþrautina þegar slysið varð, en keppnin hélt þó áfram.

Lögreglan lokaði veginum sem varð til þess að keppendur þurftu að fara af hjólum sínum og fara fram hjá vettvangi.

Ironman þríþrautin felur í sér 3,8 kílómetra sund, 180 kílómetra hjólreiðar og maraþonhlaup. Þátttakendur í keppninni í Hamborg keppa um Evrópumeistaratitilinn, sem og þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem verður í Nice í Frakklandi síðar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert