Upplýsingum stolið frá BBC, Boots og British Airways

Heimildir Telegraph herma að rússneskumælandi tölvuþrjótahópur hafi staðið að baki …
Heimildir Telegraph herma að rússneskumælandi tölvuþrjótahópur hafi staðið að baki árásinni. Ljósmynd/Colourbox

Tölvuþrjótar notfærðu sér öryggisbrest í MOVEit Transfer forritinu í síðustu viku til að komast yfir alls kyns gögn tengdum breskum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Gögnin innihalda meðal annars banka- og tengiliðaupplýsingar starfsmanna.

Sky News greinir frá en í umfjöllun þeirra segir að þúsundir fyrirtækja hafi orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótunum. Meðal þeirra eru Boots, British Airways og BBC. Um 34 þúsund manns starfa hjá flugfélaginu, um 20 þúsund hjá BBC og 50 þúsund hjá Boots.

Heimildir Telegraph herma að rússneskumælandi tölvuþrjótahópur, sem ber heitið Clop, sé að baki árásinni.

Mannauðs- og ráðgjafafyrirtækið Zellis er meðal þeirra fyrirtækja sem notar MOVEit Transfer forritið, sem er notað til að flytja gögn. Heimildir Telegraph herma að átta viðskiptavinir Zellis hafi misst gögn sín í hendur tölvuþrjótanna, þar á meða British Airways og BBC. 

Nöfn, heimilisföng og kennitölur

Í tölvupósti til starfsmanna British Airways, sem Telegraph hefur undir höndum, kemur fram að gögnin sem tölvuþrjótarnir gætu hafa komist yfir, innihaldi persónuupplýsingar á borð við nöfn, heimilisföng, kennitölur (e. national insurance numbers) og bankaupplýsingar.

BBC telur að þrjótarnir hafi ekki komist yfir bankaupplýsingar starfsmanna ríkismiðilsins en að fyrirtækjakort og kennitölur (e. national insurance numbers) gætu verið í hættu.

Boots sagði í tölvupósti til starfsmanna sinna að gögnin sem láku hafi m.a. innihaldið nöfn þeirra, starfsmannanúmer, fæðingardaga, hluta heimilisfanga og kennitölur (e. national insurance numbers). Þá hafi hakkararnir mögulega komist yfir frekari upplýsingar um lítinn hóp starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert