Ljónið frá Swazilandí fær einkaþotu eftir allt

Mswati þriðji konungur Swazilands.
Mswati þriðji konungur Swazilands.

Mswati þriðji, konungur Swazilands, fær nýja einkaþotu sem kosta mun 45 milljónir dollara. Hefur ríkisstjórn landsins hætt við að hætta við kaupin svo Mswati, sem aldrei er nefndur annað en „Ngonyama“ eða ljónið, meðal þjóðarinnar, geti ferðast um af fyllsta öryggi.

Erlend ríki gagnrýndu upphaflega ákvörðun ríkisstjórnar Swazilands harðlega og þingmenn þar í landi deildu hart á það sem þeir kölluðu ranga forgangsröð í ríkinu fátæka sem matvælaskortur og hungur blasir við.

Þing Swazilands andmælti kaupunum og skírskotaði til efnahagsvandans. Ríkisstjórnin ákvað að hætta við kaupin í framhaldi af allri gagnrýninni en hefur nú endurskoðað ákvörðun sína og snúið henni við. Talsmenn þingsins lýstu í dag vanþóknun sinni en þotan kostar sem svarar níföldum fjárlagahalla ríkisins.

Magwagwa Mdluli, sem fer með auðlinda- og orkumál í stjórn Swazilands, segir að kaupin á einkaþotunni muni gera Mswati kleift að ferðast af öryggi þegar hann gerir sér ferð úr landi í leit að erlendri aðstoð og til að laða erlenda fjárfesta til landsins.

„Hungrið mun ekki aukast þótt þotan sé keypt, það er rangt. Staðreyndin er sú að þotan er nauðsynleg svo konungur geti ferðast til annarra landa til að leita að matvælum," sagði hann.

Íbúar Swazilands, sem er á mörkum Suður-Afríku og Mósambík, eru um ein milljón. Þar af vomir hungurvofa yfir um 270.000 þeirra. Mswati er síðasti raunverulegi einræðisherra Afríku og gagnrýni á hann er afar fágæt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert