Bush: árásir á valin skotmörk í upphafi

Bush tilkynnir í sjónvarpsávarpi úr forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu að …
Bush tilkynnir í sjónvarpsávarpi úr forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu að hernaður gegn Saddam Hussein sé hafinn.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsávarpi í nótt að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn Írak væri hafin. Bush sagði að hann hefði fyrirskipað árásir á valin skotmörk í upphafi sem hefðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Hann sagði að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins.

Bush sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu engan áhuga ítökum í Írak að stríði loknu, markmiðið væri að steypa stjórn landsins af stóli. Hann sagðist bera virðingu fyrir menningu írösku þjóðarinnar og trú hennar og sagði að allt yrði gert til þess að koma í veg fyrir mannfall í röðum óbreyttra borgara.

Bush sagði að Saddam myndi nota óbreytta borgara sem mannlega skildi til að verja hersveitir sínar. „Saddam Hussein hefur staðsett hermenn og hergögn í íbúðahverfum og reynir með því að brúka óbreytta menn, konur og börn sem skildi fyrir hersveitir sínar, en það er síðasta grimmdarverk hans gegn þjóð sinni. Í þessu stríði standa Bandaríkin frammi fyrir óvini sem virðir í engu fyrir sáttmálum um framferði í stríði eða siðferðisreglum,” sagði forsetinn í ávarpinu, sem tók fjórar mínútur.

„Þetta er upphafið af víðtækri og samræmdri baráttu," sagði Bush um fyrstu aðgerðir stríðsins á hendur Saddam. Hann sagði að stríðið við hinar erfiðu aðstæður sem ríktu í Írak gæti orðið langvinnara og torsóttara en margir héldu. Markmiðið væri að losa írösku þjóðina undan oki harðstjórnar og endurreisa landið með sameiningu írösku þjóðarinnar í stöðugu og frjálsu ríki en vegna þessa lyki skuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Írökum ekki á þeirri stundu er hernaðarsigur ynnist.

„Við förum til Íraks með fullri virðingu fyrir borgurum landsins, stórkostlegri menningu þeirra og trúarbrögðum. Markmið okkar í Írak eru engin önnur en þau að ryðja ógn úr vegi og fær völdin í hendur írösku þjóðarinnar á ný," sagði Bush.

Vill ekki vera upp á náð og miskunn stigamannastjórnar kominn

„Bandaríska þjóðin leggur með trega upp í þennan hernað, en ásetningurinn er ljós. Hvorki hún né bandamenn okkar vilja vera upp á náð og miskunn stigamannastjórnar sem ógnar friði með gjöreyðingarvopnum. Við segjum þeirri ógn stríð á hendur og beitum herafla okkar til þess að þurfa ekki síðar meir að kljást við hana á götum borga okkar með sveitum slökkviliðsmanna, lögreglumanna og lækna.

Nú þegar hernaður er hafinn er eina ráðið að beita afgerandi afli. Og ég fullvissa ykkur að þetta verður ekki stríð neinnar hálfvelgju og við sættum okkur við ekki neitt nema sigur.

Hætturnar sem steðja að okkur og heimsbyggðinni allri verða yfirstignar. Við munum komast í gegnum þessa hættutíma og halda friðarstarfinu áfram. Við munum verja frelsi okkar. Og færa öðrum frelsi. Við munum ná yfirhöndinni," sagði Bush.

Stríð við Persaflóa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert