Fleiri breskir njósnarar innan IRA?

Félagar í Írska lýðveldishernum (IRA) kröfðust í gær að hafin yrði rannsókn innan samtakanna eftir að í ljós kom að yfirmaður innra öryggis þeirra var í 20 ár breskur njósnari. Að sögn írskra fjölmiðla óttast IRA-liðar að fleiri breskir njósnarar hafi náð viðlíka frama innan IRA. Njósnarinn sem gekk undir dulnefninu "Stakeknife" er talinn tengjast allt að 40 morðum.

Nokkur bresk og írsk dagblöð greindu frá réttu nafni mannsins á sunnudag. Hann mun heita Alfredo Scappaticci og er sagður hafa verið flugumaður bresku herleyniþjónustunnar er hann reis til æðstu metorða innan IRA. Þar hafi hann starfað í rúm 20 ár og þegið rúmar níu milljónir króna á ári að launum frá breskum stjórnvöldum. Sagt er að Scappaticci hafi verið fluttur á laun frá Norður-Írlandi á sunnudag nokkrum tímum áður en nafn hans var birt. Í gær var þó haft eftir ættmennum hans að hann væri enn á Norður-Írlandi og óstaðfestar fregnir hermdu að til hans hefði sést í Belfast.

Hlutverk "Stakeknife" hjá IRA var að hafa uppi á, yfirheyra, pynta og drepa IRA-liða sem veittu Bretum upplýsingar. Sagði í fyrrnefndum blöðum að hann hefði sem slíkur tengst um 40 morðum. Til að ekki kæmist upp um hann er breski herinn sagður hafa leyft aðild hans að morðunum, sem flest voru framin á N-Írlandi. "Stakeknife" er sagður hafa verið "öflugasta tækið" í 30 ára stríði breskra stjórnvalda við Írska lýðveldisherinn og veitt ómetanlegar upplýsingar.

Talsmenn Norður-Írlandsmálaráðuneytis bresku ríkisstjórnarinnar neituðu að tjá sig um málið en þjóðernissinnar á N-Írlandi kváðust í gær hafa farið formlega fram á skýringar Breta. Upplýsingar um starfsemi Scappaticci voru sagðar "mjög alvarlegar". Krafist var upplýsinga um njósnir breskra stjórnvalda á Norður-Írlandi og hugsanlega vitneskju þeirra um hefndarmorð innan IRA.

Ónefndur viðmælandi írska blaðins The Irish Times sagði í gær ótta ríkjandi innan IRA um að fleiri hátt setta flugumenn Breta væri að finna innan samtakanna. "Rannsaka þarf hvernig þessi maður náði slíkum frama, hver hækkaði hann í tign og hver tryggði að hann gat gegnt þessari stöðu svo lengi án þess að grunsemdir vöknuðu," sagði þessi viðmælandi blaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert