"Írakslekinn" varð Jäätteenmäki að falli

Ásakanir um ósannsögli í kringum leka á trúnaðargögnum úr finnska stjórnarráðinu í kosningabaráttunni í vor varð fyrsta kvenforsætisráðherra Finnlands að falli.

Það reyndist Anneli Jäätteenmäki, formanni finnska Miðflokksins sem sagði af sér sem forsætisráðherra Finnlands í gær, dýrkeypt að hafa komizt yfir upplýsingar úr trúnaðarskjölum úr finnska utanríkisráðuneytinu, sem hún gerði sér mat úr í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar í marz sl.

Áður en hún tilkynnti að hún hefði ákveðið að segja tafarlaust af sér síðdegis í gær, hafði hún neitað því á þingi að hafa logið til um það hvernig leyniskjöl sem lekið var úr stjórnarráðinu lentu í hennar höndum fyrir þingkosningarnar.

Fáeinum dögum fyrir kosningar, er kosningabaráttan stóð sem hæst, vitnaði Jäätteenmäki í trúnaðarskjal úr utanríkisráðuneytinu til stuðnings fullyrðinga um að Paavo Lipponen, þáverandi forsætisráðherra og aðalkeppinautur Jäätteenmäki, hefði dregið Finnland inn í að styðja stefnu Bandaríkjamanna í Íraksdeilunni, þvert á yfirlýsta hlutleysisstefnu landsins. Vegna þessa innihalds trúnaðarskjalanna hafa finnskir fjölmiðlar kallað málið "Írakslekann".

Jäätteenmäki var á síðasta kjörtímabili leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn fjölflokkastjórn Lipponens. Miðflokkur hennar náði þeim árangri í kosningunum 16. marz að fá fáeinum atkvæðum fleira en Jafnaðarmannaflokkur Lipponens, og hefur því verið haldið fram að þau atkvæði sem hún vann með því að gera sér pólitískan mat úr "Írakslekanum" kunni að hafa fært henni þann herzlumun sem þurfti til að slá jafnaðarmönnum Lipponens við. Flokkarnir starfa nú saman í þriggja flokka samsteypustjórn. Eftir að ljóst varð að Jäätteenmäki yrði forsætisráðherra fékk Lipponen sig kjörinn í embætti þingforseta.

Aðstoðarmaður Halonen forseta lak gögnunum

Leyniskjölin sem hér um ræðir geyma upplýsingar um það sem fór í milli Lipponens og George W. Bush Bandaríkjaforseta er þeir hittust í desember 2002. Jäätteenmäki var sökuð um að hafa sagt ósatt til um það hvernig og hvenær þau bárust henni. Hún hélt því fram að hún hefði aldrei fengið skjölin sjálf í hendur, en pólitískir mótherjar hennar sögðu skýringar hennar ótrúverðugar og sumir voru fljótir til að krefjast afsagnar forsætisráðherrans.

Í tilkynningu til þingsins í gær, áður en hún tók ákvörðunina um afsögn, lét Jäätteenmäki loks meira uppi. Sagðist hún aldrei hafa fengið gögnin sjálf í hendur heldur hefðu útdrættir úr skjölunum verið sendir henni á faxi.

"Ég bað aldrei um leyniskjöl utanríkisráðuneytisins um Íraksmál og ég fékk þau aldrei í hendur," sagði hún. Jäätteenmäki var yfirheyrð af lögreglu vegna málsins í síðustu viku. "Ég bað aldrei um þetta og það kom mér á óvart er þau bárust mér," tjáði Jäättenmäki þingheimi í gær. Afriti af upprunalegu leyniskjölunum var síðar lekið til finnskra fjölmiðla, en Jäätteenmäki sagðist ekki hafa átt neinn þátt í því.

Greindi hún frá því að einn aðstoðarmanna Törju Halonen Finnlandsforseta, Martti Manninen, hefði faxað til hennar tvö minnisblöð, sem að hluta til voru byggð á skjölum sem merkt voru sem trúnaðargögn. Nafn Manninens nefndi hún fyrst opinberlega á þriðjudag. Hann var þegar í stað rekinn og á yfir höfði sér ákæru fyrir brot í opinberu starfi og allt að tveggja ára fangelsisdóm. Afsögnina tilkynnti Jäätteenmäki eftir að Manninen lýsti því yfir að hún hefði logið að þinginu er hún hélt því fram að hún hefði ekki beðið um að sér yrðu útvegaðar þessar trúnaðarupplýsingar. Manninen tjáði finnsku fréttastofunni FNB að Jäätteenmäki hefði beðið sig um að senda sér þær, og jafnvel gefið sér upp óskráð faxnúmer sitt. Lögmaður Manninens, Matti Wuori - sem sjálfur á sæti á Evrópuþinginu sem fulltrúi finnskra Græningja - myndu símaupptökur staðfesta frásögn Manninens.

Forystumenn jafnaðarmannaflokksins kváðu gjarnan vilja halda þriggja flokka stjórnarsamstarfinu áfram, með nýjum forsætisráðherra. Þingflokkur Miðflokksins hafði aftur á móti fylkt sér að baki flokksformanninn, unz það var ákveðið á aukafundi þingflokksins síðdegis í gær að Jäätteenmäki léti af embætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert