Segulband virðist staðfesta fullyrðingar um ýkjur

Segulband sem spilað var við vitnaleiðslur í rannsókn á dauða breska vopnasérfræðingsins David Kelly í gær virðist styðja fullyrðingar þess efnis að breska ríkisstjórnin hafi ýkt ógnina sem stafaði af íröskum gereyðingarvopnum.

Blaðakona BBC lagði segulbandið fram í gær en hún tók upp samtal sem hún átti við Kelly þann 30. maí sl., degi eftir að umdeild frétt um meðhöndlun stjórnvalda á leyniþjónustuupplýsingum birtist á BBC.

Á segulbandinu segir Kelly að ríkisstjórnin hafi gert of mikið úr þeirri fullyrðingu að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum á aðeins 45 mínútum. "Þessu var lýst yfir og varð of umfangsmikið. Þeim lá mikið á að fá upplýsingar," heyrist Kelly segja fréttakonunni á segulbandinu. Þegar Watts innti Kelly eftir áliti hans á fullyrðingum George W. Bush Bandaríkjaforseta og Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, um gereyðingarvopnaeign Íraka sagði hann: "þetta voru ýkjur".

Við vitnaleiðslurnar sagði Watts mikinn mun vera á sínum fréttaflutningi og Andrew Gilligans, sem var höfundur hinnar umdeildu fréttar. "Ég minnist nefnilega ekki á Alastair Campbell [almannatengslastjóra Tony Blair forsætisráðherra]." Hún sagði jafnframt að yfirmenn hennar á BBC hefðu þrýst á hana að staðfesta frétt Gilligans. "Ég var undir miklum þrýstingi að greina frá heimildarmanni mínum. Mér fannst að tilgangur þess væri að staðfesta ásakanir Andrew Gilligans en ekki að flytja fréttir," sagði Watts.

Að því er fram kemur á fréttavef BBC bar Richard Sambrook, fréttastjóri BBC, einnig vitni vegna rannsóknarinnar í gær. Hann sagði nafnlausa heimildarmenn vera fréttastöðinni "lífsnauðsynlega" og kvað fréttamenn stöðvarinnar auk þess einungis nota slíka heimildarmenn ef þeir "vita um hvað þeir eru að tala".

Sambrook sagðist enn fremur vera hissa á þeim deilum sem frétt Gilligans kom af stað og gagnrýni Campbells á stöðina í kjölfar fréttarinnar. "Við bjuggumst sannarlega ekki við þessu. Hann [Campbell] notaði þetta til að ráðast á öll gildi ritstjórnar BBC."

London. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert