Apar eru afar viðkvæmir fyrir óréttlæti

Þessi api tók ekki þátt í rannsókninni en hefur fundið …
Þessi api tók ekki þátt í rannsókninni en hefur fundið fyrir óréttlæti heimsins ef að líkum lætur. mbl.is

Apar, líkt og menn, eru afar viðkvæmir fyrir óréttlæti, segir í niðurstöðu tveggja ára rannsóknar, sem birtast mun í tímaritinu Nature á morgun. Í niðurstöðunum segir að allt bendi til að tilfinningin fyrir jafnrétti hafi búið með prímötum fyrir langa löngu.

Atferlisfræðingarnir Sarah Brosnan og Frans de Waal við Emory-háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum kenndu öpum af capuchin-ættbálki að þiggja gervipeninga að launum fyrir vel unnin verk og síðan að greiða með þeim fyrir mat sinn. Kom í ljós að þeir urðu afbrýðisamir ef einum var hyglað umfram aðra í hópnum.

Aparnir voru að öllu jöfnu fúsir til að greiða með myntinni fyrir gúrku en ef atferlisfræðingarnir afhentu einum apa t.d. vínber, sem eru ofar á vinsældalista apanna, urðu hin dýrin afbrýðisöm.

Sumir apanna neituðu alveg að afhenda myntina á meðan aðrir féllust á að greiða fyrir gúrkuna en neituðu fullir fyrirlitningar að éta hana. Ef apinn sem fékk vínberin fékk þau fyrir ekkert urðu félagar hans iðulega bálreiðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert