London helsta skotmark hryðjuverkamanna

Öryggisvarsla hefur verið hert á breskum flugvöllum vegna aukins ótta …
Öryggisvarsla hefur verið hert á breskum flugvöllum vegna aukins ótta við hryðjuverk.

Meiri hætta er á hryðjuverkaárás af hálfu íslamskra öfgamanna á London en nokkra aðra borg í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sérstakrar stofnunar, Control Risk Group (CRG), sem fæst við hvers kyns áhættumat.

Megin ástæður þessarar niðurstöðu CRG er aðild Breta að hernaðinum gegn Saddam Hussein Íraksforseta og mikill fjöldi múslima í Bretlandi. Því væru „verulegar líkur“ á því að sjálfsmorðstilræði yrði framið þar.

Samkvæmt mati stofnunarinnar á öryggisástandi í 195 ríkjum heims fyrir árið 2004 hefur hættan á hryðjuverki í London verið aukin úr „lítilli“ í „meðalmikla“. Annars staðar í Bretlandi er hættan lítil talin því þar er ekki að finna pólitísk skotmörk að mati CRG.

„London er orðið helsta skotmark hryðjuverkamanna í Vestur-Evrópu," segir Jake Stratton sem stjórnaði rannsókn CRG. Löngum hafi hættan verið lítil og óljós en í augum íslamskra öfgamanna hafi ímynd Breta sem mikilla bandamanna Bandaríkjamanna eflst mjög undanfarið.

Stratton segir að þótt Bandaríkjunum væri talsverð hætta búin af hryðjuverkamönnum væru hugsanleg skotmörk þeirra mörg sem drægi úr hættunni hvað einstakar borgir áhrærði.

Hann sagði þátttöku tveggja breskra íslamsrka öfgamanna í sjálfsmorðstilræði í Ísrael fyrr á árinu benda til þess að öfgamenn væru einnig á sveimi í Bretlandi. Líklegasta árásaraðferðin væri sjálfsmorðssprengja. Hvort sem einstaklingur bæri slíka sprengju innan klæða eða henni væri ekið á bíl væri tiltölulega einfalt að útbúa slíka sprengju og afar erfitt að verjast henni, sagði Stratton.

Heimasíða Control Risk Group

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert