Fötluðum dreng settur stóllinn fyrir dyrnar

Dómstóll í Englandi hefur úrskurðað að brotið hafi verið á nemanda, sem var útilokaður frá þátttöku í skólaleikriti vegna fötlunar sinnar, segir í frétt á vef BBC. Hinum sex ára Lee Buniak var að auki ekki leyft að búa til jólakort við Jenny Hammond grunnskólann í Leytonstone í austurhluta Lundúna. Þá var honum, einum nemenda, meinað að fara í skólaferðalag og honum var ekki boðið að vera með á bekkjarmynd. Nefnd sem fer með réttindi fatlaðra segir að um átakanlegt mál sé að ræða og sakar skólayfirvöld við Jenny Hammond um að bera ábyrgð á að Lee litli hafi misst eitt skólaár úr vegna skorts á aðstoð við hann í skólanum, sem hann átti rétt á skv. lögum.

Móðir Lee Buniak, Helen Buniak, sagði við réttarhöldin að hann hefði verið eina barnið sem fór ekki í ferðalag með bekkjarsystkinum sínum í mars sl. Skólayfirvöld hafi sagt að vegna fötlunar sinnar bæri Lee ekkert skynbragð á hættur sem gætu steðjað að honum og væri þar af leiðandi bæði sjálfum sér og öðrum hættulegur ef hann nyti ekki sérstakrar umönnunar. Í janúar og febrúar á þessu ári fékk hann t.d. ekki að taka þátt í smíðaverkefnum og kökubakstri. Helen Buniak segist sjálf hafa þurft að annast son sinn í skólanum daglega í mánuð sumarið 2002.

Frú Buniak segir þetta mikið áfall fyrir son sinn og kornið sem hafi fyllt mælinn hafi verið þegar honum var meinað að taka þátt í jólaleikriti bekkjarsystkina sinna. Hún segir Lee hafa verið glaðvært barn og skrafhreifið áður en hann byrjaði í skólanum en nú sé hann órólegur og pirraður vegna skorts á stuðningi og skilningi. „Hann skilur ekki af hverju honum var meinað að vera með,“ segir hún.

Skólayfirvöldum hefur verið fyrirskipað að biðja Lee litla og móður hans afsökunar skriflega og einnig eru þau skikkuð til þess að senda alla starfsmenn skólans á námskeið um rétt fatlaðra til jafns við ófatlaða fyrir apríl næstkomandi. Þá er skólayfirvöldum skipað að endurskoða starfsreglur sínar um fatlaða nemendur fyrir febrúar nk.

Að sögn Sally Labern, talsmanns Jenny Hammond grunnskólans, fer nú fram rannsókn innan veggja skólans sem sé viðkvæm og þurfi að fara fram í ró og næði. „En mér er það deginum ljósara, að þetta er mál sem við þurfum að læra af.“ Hún segist þegar hafa ritað mæðginunum afsökunarbréf og tilkynnt þeim að breytingar verði gerðar í skólanum.

En Lee litli Buniak sækir nú annan skóla þar sem hann er í einu aðalhlutverkanna í skólaleikritinu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson