Þjóðveldisflokkurinn tapar fylgi í Færeyjum

Útlit er fyrir að Þjóðveldisflokkurinn tapi umtalsverðu fylgi í þingkosningum sem haldnar verða í Færeyjum 20. þessa mánuðar. Samkvæmt skoðanakönnun, sem blaðið Sosialurin birti í vikunni hefur nærri fimmti hver kjósandi flokksins í síðustu kosningum ákveðið að greiða öðrum flokkum atkvæði sitt nú.

Samkvæmt könnuninni bæta Sambandsflokkurinn og Jafnaðarflokkurinn við sig fylgi og gætu náð meirihluta á lögþinginu eftir kosningar. Samkvæmt könnuninni fær Sambandsflokkurinn 28,5% atkvæða og 10 þingmenn, bætir við sig 2 mönnum, og Jafnaðarflokkurinn fær 22,1% og 8 átta þingmenn, bætir við sig 1 manni. Þjóðveldisflokkurinn fær 19,4% og 6 þingmenn, tapar 2, Fólkaflokkurinn fær 19,8% atkvæða og 6 þingmenn, tapar einum. Sjálfstýrisflokkurinn og Miðflokkurinn fá einn þingmann hvor.

Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvaða flokk þeir hefðu kosið síðast og hvaða flokk þeir ætluðu að kjósa nú. Fram kom að um fimmtungur kjósenda Þjóðveldisflokksins ætlar að kjósa aðra flokka nú, flestir Fólkaflokkinn.

Anfinn Kallsberg, lögmaður Færeyja og formaður Fólkaflokksins, rauf þing og boðaði til kosninga í byrjun desember þegar Þjóðveldisflokkurinn lýsti vantrausti á hann. Að færeysku landsstjórninni stóðu fjórir flokkar: Fólkaflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstýriflokkurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert