Bandarísk stjórnvöld segja meintar misþyrmingar á íröskum föngum auvirðilegar

Abu Ghraib fangelsið í Bagdad.
Abu Ghraib fangelsið í Bagdad. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur fordæmt meintar misþyrmingar bandarískra hermanna á íröskum föngum og segir þær auvirðilegar. Sagði Scott McClellan, talsmaður Hvíta hússins í dag, slíkt framferði verði ekki þolað og Bandaríkjaher hafi fullyrt að þeim sem beri ábyrgð á því verði refsað eins og lög geri ráð fyrir. Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS sýndi myndir sem sagðar voru af íröskum föngum sem sættu ýmiskonar misþyrmingum og hefur málið vakið mikla reiði og hneykslan víða um heim.

Ein myndin sýndi nakinn fanga standa á kassa og höfðu rafmagnsvírar verið festir við kynfæri hans. Var honum sagt, að ef hann dytti af kassanum myndi hann fá raflost sem nægði til að drepa hann.

Önnur mynd sýndi nakta fanga sem neyddir voru til kynferðislegra athafna. Á enn annarri mynd sést kvenkyns hermaður, með sígarettu í munninum, þykjast beina byssu að kynfærum nakins fanga.

Í mars var 17 hermönnum veitt tímabundin lausn frá störfum á meðan rannsókn færi fram á ásökunum um að þeir hefðu beitt fanga í Írak misþyrmingum. Sex hermenn, þar á meðal undirhershöfðingi, munu væntanlega verða dregnir fyrir herrétt og eiga yfir höfði sér fangelsisdóm vegna myndanna, sem teknar voru í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad.

CBS News segir að beðið hafi verið með að senda fréttina út í hálfan mánuð vegna óska frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu sem vildi ekki auka á spennina í Írak. McClellan segir, að Bush hafi vitað af þessum ásökunum í nokkurn tíma, og vænti þess að gripið verði til viðeigandi aðgerða gagnvart þessum einstaklingum.

Málið hefur verið fordæmt víða um heim. Adnan Al-Pachachi, sem situr í framkvæmdaráði Íraks, segir að þessar uppljóstranir muni valda mikilli reiði og óánægju meðan Íraka sem óttast um öryggi sitt. En hann sagði að þetta væri ekki sambærilegt og sú meðferð, sem fangar sættu í Abu Ghraib fangelsinu á stjórnartíma Saddams Husseins því þá hefðu fangar ekki aðeins verið pyntaðir heldur einnig teknir af lífi.

Einn hermannanna, sem vikið var frá vegna málsins, segir að Bandaríkjaher hafi, með rekstrinum á fangelsinu, skapað jarðveg fyrir þessar misþyrmingar. „Við fengum engan stuðning, enga þjálfun. Ég spurði yfirmenn mína ítrekað um ákveðna hluti... svo sem reglur. En ég fékk engin svör," sagði Chip Frederick, liðþjálfi, við CBS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert