Manmohan Singh tilnefndur í embætti forsætisráðherra Indlands

Þegar Sonia Gandhi kom hingað til lands árið 2001 var …
Þegar Sonia Gandhi kom hingað til lands árið 2001 var Manmohan Singh, tilvonandi forsætisráðherra Indlands, með henni í för. Myndin var tekin á Bessastöðum og er Singh fyrir miðri mynd. mbl.is/Sverrir

Þing Indlands lagði í dag til, að Manmohan Singh verði næsti forsætisráðherra landsins en Sonia Gandhi, leiðtogi Kongressflokksins, hefur afþakkað embættið. Gert er ráð fyrir að Singh verði í kjölfarið kjörinn leiðtogi þingflokks Kongressflokksins á lokuðum fundi og hann gangi í kjölfarið á fund Abduls Kalam, forseta Indlands, ásamt Gandhi og óski eftir heimild til að mynda nýja ríkisstjórn.

Singh er 71 árs gamall hagfræðingur frá Oxfordháskóla. Hann er Síkhi og yrði fyrsti forsætisráðherra Indlands sem ekki er Hindúi. Singh starfaði um tíma hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum en gegndi embætti fjármálaráðherra meðan Kongressflokkurinn var við völd á árunum 1991 til 1996 og beitti sér þá fyrir því að indverska hagkerfið var opnað eftir áratugalanga haftastefnu.

Mikið hefur verið reynt að fá Soniu Gandhi ofan af þeirri ákvörðun sinni að gefa ekki kost á sér í embætti forsætisráðherra en árangurslaus. Í yfirlýsingu, sem hún sendi félögum í Kongressflokknum í morgun, sagðist hún ætla að leiða flokkinn áfram. „En ég bið ykkur að skilja að ég tala af dýpstu sannfæringu þegar ég segi að að ég geti ekki breytt ákvörðun minni um að verða ekki forsætisráðherra," segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert