Chirac og Bush ósammála um NATO og Írak

Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims og gestir þeirra stilla sér …
Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims og gestir þeirra stilla sér upp við fundarstað sinn í Georgíuríki í Bandaríkjunum. ap

Samskipti Bandaríkjamanna og Frakka þóttu stirðna á ný í gær er Jacques Chirac, forseti Frakklands, lýsti því yfir að hann teldi að Atlantshafsbandalagið (NATO) ætti ekki að beita sér í Írak.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hafði fyrr um daginn sagst sjá fyrir sér að NATO léti til sín taka í Írak eftir að hernámi lyki þar formlega um næstu mánaðamót.

"Ég tel ekki að það sé hlutverk NATO að skipta sér af málum í Írak," sagði Chirac og bætti við að hann hefði sterkar skoðanir á þessu máli. Orð hans þóttu í gærkvöld hafa spillt samskiptum ríkjanna aðeins degi eftir að þau komu sér saman um nýja ályktun um málefni Íraks í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Samskiptin hafa verið stirð undanfarna mánuði þar sem Frakkar studdu ekki innrásina í Írak.

Bush tjáði sig um hlutverk NATO í Írak eftir að hafa átt fund með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í tengslum við árlega ráðstefnu leiðtoga átta helstu iðnríkja heims, sem lýkur í dag vestra.

"Við teljum að NATO eigi að koma að málum. Við munum vinna með bandamönnum okkar í NATO að því að viðhalda því hlutverki sem þeir gegna í Írak og vonandi auka það," sagði Bush. NATO gegnir sem slíkt engu formlegu hlutverki í Írak en 15 aðildarríkjanna 26 hafa sent liðsafla til landsins.

Bandarískir embættismenn sögðu stjórnvöld vilja að NATO kæmi sem bandalag að þjálfun hins nýja hers Íraka auk þess sem aðildarríki sem hefðu liðsafla þar lýstu sig reiðubúin til að viðhalda honum.

Talsmaður NATO sagði í gær ógerlegt að segja til um hvert hlutverk bandalagsins gæti orðið í Írak. Fyrst þyrfti að koma fram beiðni í þá veru frá stjórnvöldum í Írak en um mánaðamótin lýkur hernámi þar samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og bráðabirgðastjórn heimamanna tekur við völdum.

Sea-eyju í Georgíu, Brussel. AP. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert