Vinkona Lindh segir mögulegt að Mijailovic hafi veitt henni eftirför fyrir árásina

Mijailo Mijailovic, morðingi Önnu Lindh.
Mijailo Mijailovic, morðingi Önnu Lindh. AP

Náin vinkona Önnu Lindh, fyrrum utanríkisráðherra Svía, sem myrt var af árásarmanni í fyrrahaust sagði í dag að vel gæti verið að morðingi hennar hafi veitt henni eftirför fyrir árásina. Maðurinn, Mijailo Mijailovic, réðist að Lindh með hnífi í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi í september. Eva Franchell, vinkona Lindh, sem var með henni í verslunarmiðstöðinni, bar í dag vitni fyrir dómi í áfrýjunarmáli Mijailovic, og dró upp ógnvekjandi mynd af ofbeldisfullu og hugsanlega fyrirfram skipulögðu morði á Lindh.

Mijailovic stakk Lindh ítrekað með hnífi í maga, brjóst og hendur, en hún lést af sárum sínum 11. september, degi eftir árásina. Morðið á Lindh var eitt mesta áfall sem sænska þjóðin hefur orðið fyrir frá því Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra landsins, var myrtur árið 1986, en það morð hefur ekki enn verið upplýst.

Mijailovic var dæmdur í lífstíðarfangelsi af héraðsdómara í Stokkhólmi í mars, en hann hefur áfrýjað dómnum. Hann segir að þótt þau sár sem hann veitti Lindh hafi orðið henni að bana, hafi ekki verið ætlun hans að myrða hana.

Franchell sagði áfrýjunardómstólnum að Mijailovic virtist hafa fylgst með Lindh frá nálægri verslun í miðstöðinni áður en hann lét til skarar skríða og réðist á hana. „Ég held að hann hafi verið að leita að henni,“ sagði hún. „Ég upplifði þetta þannig að hann hafi undirbúið sig, svo hlaupið að henni og ráðist á hana af ótrúlegu afli,“ sagði hún og endurtók þar með framburð sinn frá því í fyrri réttarhöldunum yfir Mijailovic.

Franchell kvaðst ekki séð hnífinn og sagðist ekki hafa séð Mijailovic stinga Lindh. „Þegar ég hugsa um þetta átta ég mig á því að ég var afar hrædd,“ sagði hún.

Peter Althin, lögmaður Mijailovic, sagði meðal annars eftir framburð Franchell, að framburður hennar nú væri í ósamræmi við fyrri framburð hennar í málinu. „Fyrir héraðsdómnum sagði hún að hún hefði ekki einu sinni þekkt Mijailovic á ný,“ sagði hann og bætti við að verjendum hans þætti framkoma hennar fremur mótsagnakennd.

Mijailovic, sem neitaði að bera vitni þegar áfrýjunardómstóll hóf að taka mál hans fyrir í gær, heldur því statt og stöðugt fram að raddir í höfði hans hafi sagt honum að ráðast á Lindh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert