Hundruð hjólreiðamanna handtekin í New York vegna mótmæla

Lögregla handtekur einn hjólreiðamanninn í gærkvöldi.
Lögregla handtekur einn hjólreiðamanninn í gærkvöldi. AP

Um 250 hjólreiðamenn voru handteknir þegar þeir hjóluðu gegnum miðborg New York, hrópuðu slagorð gegn George W. Bush, Bandaríkjaforseta iog lentu nokkrum sinnum í útistöðum við ökumenn bíla. Þúsundir hjólreiðamanna tóku þátt í mótmælaaðgerðum sem sem skipulagðar voru vegna væntanlegs flokksþings Repúblikanaflokksins í borginni.

Paul Browne, aðstoðarlögreglustjóri, sagði að hjólreiðamennirnir hefðu valdið miklum truflunum og stofnað öryggi ökumanna í hættu. Þátttakendur í aðgerðunum sögðu hins vegar að mótmælaaðgerðirnar hefðu verið friðsamlegar og sökuðu lögreglu um að beita óhóflegu valdi.

Ýmis fleiri samtök og hópar hafa staði fyrir mótmælum í New York í vikunni. M.a. gengu hundruð mæðra með ung börn sín í gær yfir Brooklyn brúna og sögðu að Bush notaði opinbert fé í stríðsrekstur en ekki til að búa í haginn fyrir bandarísk börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert