100 þúsund Írakar sagðir hafa fallið í Íraksstríðinu

Írakar virða fyrir sér skemmdir eftir loftárásir Bandaríkjahers á borgina …
Írakar virða fyrir sér skemmdir eftir loftárásir Bandaríkjahers á borgina Falluja í Írak. AP

Í nýrri skýrslu, sem bandarískir heilbrigðissérfræðingar hafa gert, er leitt að því líkum að um 100 þúsund Írakar hafi látið lífið af völdum stríðsátaka og ofbeldisverka frá því Bandaríkjamenn og stuðningsmenn þeirra réðust inn í Írak á síðasta ári. Segir í skýrslunni að mannfallið hafi einkum stafað af loftárásum Bandaríkjamanna á borgir og bæi í landinu.

Vitnað var í skýrsluna í fréttum Sky News sjónvarpsstöðvarinnar í kvöld. „Varlega áætlað teljum við að um 100 þúsund manns hafi látið lífið," segir Les Roberts, einn skýrsluhöfunda í skýrslunni, sem birtist í breska læknatímaritinu The Lancet. „Loftárásir á svæðum þar sem mikið er af almennum borgunum virðast hafa valdið dauða fjölda kvenna og barna."

Dánartíðni í Írak var þegar há fyrir stríðið vegna viðskiptaþvingana Sameinuðu þjóðanna en sérfræðingarnir segja að niðurstöður athugana þeirra hafi verið skelfilegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert