Bush segir að kosningarnar í Írak verði „stórviðburður“

Bush svarar fréttamönnum í Hvíta húsinu í kvöld.
Bush svarar fréttamönnum í Hvíta húsinu í kvöld. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti spáir því að kosningarnar í Írak um helgina verði „stórviðburður“ í sögu þjóðarinnar þrátt fyrir mjög harða sókn uppreisnarmanna sem reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að kosningarnar fari friðsamlega fram. Þetta sagði hann í dag á öðrum blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu eftir að hann sór embættiseið sem forseti nú í janúar.

Bush vildi ekki segja hvenær byrjað yrði að flytja fyrstu bandarísku hermennina heim frá Írak en þeir eru um 150.000. „Við munum ljúka verkefninu eins fljótt og hægt er,“ svaraði hann aðeins.

Hann sagðist búast við því að framfarir yrðu í því að byggja upp öflugar öryggissveitir Íraka árið 2005 en hann hefur gert það að frumskilyrði fyrir því að bandaríski herinn verði kallaður heim frá Írak. Hann sagði hins vegar ekkert um hvenær það takmark myndi náðst.

„Hvað hersveitirnar varðar verðum við augljóslega að hafa nægilega margar sveitir á staðnum til að ljúka verkefninu. Og það verkefni er að gera írösku þjóðinni kleift að verja sig fyrir hryðjuverkamönnum, bæði heimamönnum og hryðjuverkamönnum sem koma erlendis frá.“

Hann viðurkenndi að uppreisnarmönnum hefði tekist að búa til mikla ringulreið sem gerði það að verkum að margir Írakar væru „hræddir“ nú fyrir kosningarnar. Hann spáði því að samt sem áður myndi meirihlutinn taka þátt í kosningunum. „Milljónir Íraka munu sýna hugrekki, föðurlandsást og löngun sína til að búa við frelsi,“ sagði Bush og bætti svo við: „Ég býst við stórviðburði í sögu þjóðarinnar.“ Hann vildi ekki spá neinu um kosningaþátttöku en sagði: „Bara það að fólk kjósi er sigur í sjálfu sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert