Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkir lög til að bjarga lífi heilaskaddaðrar konu

Tom DeLay, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, og fleiri öldungadeildarþingmenn, …
Tom DeLay, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, og fleiri öldungadeildarþingmenn, ræða við blaðamenn um mál Terri Schiavo. AP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld lög til að reyna að tryggja að búnaður, sem notaður hefur verið til að dæla næringu í æð alvarlega heilaskaddaðrar konu, verði gangsettur á ný. Búnaðurinn var aftengdur á föstudag að ósk eiginmanns hennar en ættingjar konunnar hafa barist fyrir því að henni verði haldið á lífi.

Konunni, sem heitir Terri Schiavo, hefur verið haldið á lífi með vélum í 15 ár. Þrýstingur hefur verið á bandaríska þingmenn að grípa til aðgerða til að bjarga lífi konunnar. Hefur George W. Bush, Bandaríkjaforseti, beitt sér í málinu.

„Forsetinn telur, að þetta sé mál sem fjallar um mikilvæg grundvallaratriði," sagði Scott McClellan, talsmaður Bush. Forsetinn fór í kvöld frá Texas til Washington svo hann geti staðfest lögin um leið og þau eru tilbúin. Gert er ráð fyrir að fulltrúadeild þingsins komi saman á morgun til að greiða atkvæði um lögin.

Dómari í Flórída úrskurði á föstudag að fara bæri að óskum Michaels Schiavos, eiginmanns Terri, um að leyfa henni að deyja. Voru tækin aftengd í kjölfarið og var þá talið að Terri myndi deyja eftir eina eða tvær vikur.

Foreldrar Schiavos, sem eru kaþólskir og mjög trúræknir, vildu ekki samþykkja að tækin, sem hafa séð um að dæla næringu í æðar hennar, yrðu aftengd. Tækin hafa tvisvar áður verið aftengd en síðan tengd á ný eftir nýjan dómaraúrskurð.

Michael Schiavo segir að eiginkonan hafi á sínum tíma tjáð sér að hún vildi ekki að sér yrði haldið á lífi með aðstoð tækja. Hún andar án tækja en varð fyrir miklum heilaskaða árið 1990 vegna breytinga á efnaskiptum í tengslum við átröskun sem þjakaði hana. Foreldrarnir bera brigður á þá fullyrðingu hans og segja að dótturinni geti batnað. Hún hafi hlegið, grátið, brosað og sýnt viðbrögð þegar talað var við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert