Bush undirritar lög til að bjarga lífi heilaskaddaðrar konu

Mary Schindler, móðir Terri Schiavo, og Suzanne Vitadamo, systir hennar …
Mary Schindler, móðir Terri Schiavo, og Suzanne Vitadamo, systir hennar ræða við blaðamenn. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti undirritaði í morgun lög sem eiga að tryggja að búnaður, sem notaður hefur verið til að dæla næringu í æð alvarlega heilaskaddaðrar konu, verði gangsettur á ný. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti lögin í gærkvöldi og fulltrúadeildin samþykkti þau í morgun.

Búnaður konunnar Terri Schiavo, var aftengdur á föstudag að ósk eiginmanns hennar en ættingjar konunnar hafa barist fyrir því að henni verði haldið á lífi með vélum eins og gert hefur verið síðustu 15 ár.

Dómari í Flórída úrskurðaði á föstudag að fara bæri að óskum Michaels Schiavos, eiginmanns Terri, um að leyfa henni að deyja. Voru tækin aftengd í kjölfarið og var þá talið að Terri myndi deyja eftir eina til tvær vikur. Foreldrar Schiavos, sem eru kaþólskir og mjög trúræknir hafa barist gegn því að tækin yrðu aftengd en það hefur tvisvar áður verið gert. Tækin hafa síðan verið tengd á ný eftir nýjan dómaraúrskurð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert