Franskir vinstrimenn gagnrýna að flaggað sé í hálfa stöng til heiðurs páfa

Flaggað í hálfa stöng við opinbera byggingu í París í …
Flaggað í hálfa stöng við opinbera byggingu í París í viðringarskyni við páfa. ap

Nokkrir helstu leiðtogar franskra vinstrimanna gagnrýndu í dag harðlega stjórn Jacques Chiracs forseta fyrir að mæla fyrir um að flaggað skyldi í hálfa stöng á opinberum byggingum í virðingarskyni við Jóhannes Pál annan páfa. Þeir segja það stangast á við grundvallar viðmið um aðskilnað ríkis og kirkju í Frakklandi.

„Það er hluti af einkalífi kristinna manna að votta leiðtoga kirkjudeildar þeirra virðingu. Þegar þjóðhöfðingi blandar allri þjóð sinni í það, óháð trúarbrögðum hennar, þá er það augljós misnotkun valds,“ segir Yves Contassot, varaborgarstjóri París og liðsmaður Græna flokksins.

Contassot vitnaði í þessu sambandi til þess að ríkisstjórn Chiracs hefði í fyrra fengið sett lög um bann við trúartáknum í skólum. „Í dag er ríkisstjórn okkar og þjóðhöfðingi að reyna að slá pólitískar kylfur með einkamáli. Það finnst mér afar óviðeigandi og er - hvað fánana varðar - hugsanlega ólöglegt,“ bætti hann við.

Jean-Luc Melenchon, áhrifamaður í Sósíalistaflokknum, sagði flöggunina vera „slægð“. „Hún gæti haft alls konar afleiðingar. Yfirvöld eiga að virða aðskilnaðarregluna algjörlega og ótvírætt. Hvort sem það er ætlunin eða ekki er lækkun þjóðfánans viss greiði við tiltekin trúarbrögð,“ sagði hann.

Flaggað var í hálfa stöng í sólarhring frá andláti páfa. Embættismenn sögðu það gert til að heiðra virðulegan leiðtoga og mikilsverðan alþjóðlega mannveru, ekki trúarleiðga. „Þessari lýðveldishefð er beitt varðandi ríkjandi ráðamenn sem Frakkland hefur átt sérstakt samband við. Hið sama var gert varðandi fyrrverandi páfa,“ sagði talsmaður Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra.

Rithöfundurinn Max Gallo stökk hins vegar til varnar ríkisstjórninni. „Jóhannes Páll hafði áhrif á alla menn, trúaða eða heiðna, þökk sé persónuleika hans. Frakkland skuldaði sjálfu sér að sýna sorg sína,“ segir Gallo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert