Ratzinger sagður standa best að vígi; varar við „harðstjórn afstæðishyggjunnar“

Ratzinger stýrir samkomunni í Péturskirkjunni í morgun.
Ratzinger stýrir samkomunni í Péturskirkjunni í morgun. AP

Kardínálarnir sem í dag mæta til lokaðrar samkomu þar sem þeir munu kjósa nýjan páfa eru sagðir skiptast í tvær fylkingar: Annars vegar eru þeir sem styðja kjör þýska kardínálans Josephs Ratzingers, sem talinn er íhaldssamur, og hins vegar þeir sem eru fylgjandi Ítalanum Carlo Maria Martini, sem aftur á móti er talinn frjálslyndur. Frá þessu greina ítölsk dagblöð í dag.

Þannig segir la Repubblica að Ratzinger standi betur að vígi, en Il Giornale segir að Martini hafi fallist á að vera í fararbroddi þeirra sem vilja koma í veg fyrir kjör Ratzingers. Hann hélt stólræðu við messu sem kardínálarnir sóttu í morgun og hvatti þá til að kjósa páfa sem ekki myndi láta eftir kröfum tíðarandans um breyttar áherslur í stefnu kirkjunnar.

„Nú á dögum er það, að halda fast í trú sem byggist á kenningum kirkjunnar, oft kallað bókstafstrú, en afstæðishyggja, sem er það að láta berast fyrir öllum kenningavindum, virðist vera það eina sem nú er talið viðunandi,“ er haft eftir Ratzinger á fréttavef kanadíska ríkisútvarpsins, CBC. „Við eigum yfir höfði okkar harðstjórn afstæðishyggju sem ekki viðurkennir að neitt sé fullvíst og á sér ekkert markmið annað en sitt eigið sjálf og eigin þrár,“ sagði Ratzinger ennfremur.

Kardínálarnir halda til lokaðs kjörfundar í Sextusarkapellunni í Vatíkaninu klukkan hálf tvö í dag að íslenskum tíma.

Frá messunni sem kardínálarnir sóttu í morgun.
Frá messunni sem kardínálarnir sóttu í morgun. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert