Fjármálaráðherrar helstu iðnríkjanna ræða áfram um áætlun um afnám skulda fátækustu ríkja heims

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, stýrir fundinum í Lundúnum.
Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, stýrir fundinum í Lundúnum. AP

Fjármálaráðherrar átta helstu iðnríkja heims reyna áfram í dag að ná samkomulagi um áætlun, sem miðar að því að strika út skuldir fátækustu þjóða heims við alþjóðalánastofnanir á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Heildarupphæðin nemur um 40 milljörðum dala, jafnvirði um 2500 milljörðum króna.

Bretar og Bandaríkjamenn vilja að ríkjahópurinn felli strax niður erlendar skuldir 18 fátækustu ríkjanna, sem uppfylla skilyrði um stjórnarfar. Tuttugu ríki í viðbót gætu á síðari stigum uppfyllt skilyrði um niðurfellingu skuldanna. Meðal þeirra ríkja, sem rætt er um að fella niður skuldir hjá strax eru Benin, Bólivía, Burkina Faso, Eþíópía, Gana, Guyana og Malí.

„Ráðherrarnir halda viðræðunum áfram," sagði Tony Fratto, talsmaður Johns Snow, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. „Við vonumst til að ná samkomulagi en það hefur ekki tekist enn."

Fjármálaráðherrar Bretlands, Bandaríkjanna, Ítalíu, Frakklands, Rússlands, Kanada og Japans munu einnig ræða önnur mál á fundinum, sem haldinn er í Lundúnum. Þar á meðal um áhrif af háu olíuverði á efnahag heimsins, fjárlaga- og viðskiptahalla Bandaríkjanna og lítinn hagvöxt í Evrópu.

Fundur fjármálaráðherranna er haldinn til að undirbúa leiðtogafund iðnríkjanna átta í Gleneagles í Skotlandi 6.-8. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert