Páfi gagnrýnir „guðleysi“ og frjálslyndi í Evrópu í nýrri bók

Páfi veifar mannfjöldanum á Péturstorginu í Róm á sunnudag.
Páfi veifar mannfjöldanum á Péturstorginu í Róm á sunnudag. AP

Benedikt páfi XVI gagnrýnir leiðtoga í Evrópu fyrir að stefna að því að skapa samfélag sem hann segir án Guðs, auk þess sem hann fordæmir einnig Vesturlönd fyrir að leyfa fóstureyðingar, í nýrri bók eftir hann sem kynnt verður á morgun.

Bókin var skrifuð þegar hann var enn Joseph Ratzinger kardínáli og ber hún nafnið: „The Europe of Benedict, in the crisis of cultures.“ Er í henni gefið til kynna hvað hann muni leggja áherslu á sem páfi.

Í bókinni er efni sem var skrifað árið 1992 og efni sem var skrifað á þessu ári, stuttu áður en hann var kjörinn páfi.

Hann gagnrýnir mjög að leiðtogar Evrópusambandsins neituðu að minnast á kristnar rætur álfunnar í nýrri stjórnarskrá sambandsins og segir það eitt dæmi um að Evrópa, með sínum tómu kirkjum, væri oft fjandsamleg trúarbrögðum.

„Það er ekki að það að minnast á Guð gangi fram af fólki sem tilheyrir öðrum trúarbrögðum, heldur að reynt sé að byggja mannlegt samfélag algerlega án Guðs,“ skrifar hann en margir töldu að múslimar og gyðingar kynnu að móðgast ef minnst væri á kristni í stjórnarskránni.

Í sambandi við fóstureyðingar spyr hann hvers vegna samfélög séu andsnúin morðum á börnum „á sama tíma og þau séu nánast ónæm fyrir fóstureyðingum“.

„Kannski af því að með fóstureyðingu sérðu aldrei andlit þess sem verður fordæmdur og sér aldrei ljósið,“ skrifar hann.

Titill bókarinnar vísar til miðaldamunksins St. Benedikt af Norcia, verndardýrlings Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert