Bush tilnefnir alríkisdómara í embætti hæstaréttardómara

John Roberts.
John Roberts. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, mun tilnefna alríkisdómarann John Roberts í embætti hæstaréttardómara í stað Sandra Day O'Connor, sem hefur sagt af sér embætti sökum aldurs. Bandarískur embættismaður, sem ekki vildi láta nafns síns getið, upplýsti þetta í kvöld en Bush mun tilkynna ákvörðun sína síðar í nótt að íslenskum tíma.

Roberts hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington. Bush tók ákvörðun í kvöld og yfirgaf í stutta stund kvöldverðarboð, sem hann hélt til heiðurs John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, til að hringja í Roberts og bjóða honum embættið.

Roberts fæddist árið 1955 í Buffalo í New York. Hann útskrifaðist frá lagadeilt Harward-háskóla og var um tíma aðstoðarmaður Williams Rehnquists, núverandi forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann starfaði síðan í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari frá því í júní 2003 eftir að Bush tilnefndi hann í embættið.

Roberts þykir íhaldssamur í skoðunum og gæti átt erfiða tíma fyrir höndum þegar Bandaríkjaþing fjallar um útnefninguna þótt hann eigi stuðningsmenn bæði meðal repúblikana og demókrata. Frjálslyndir hópar segja, að Roberts hafi tekið afstöðu í málum, sem fjalla um málfrelsi og trúfrelsi og gæti sem hæstaréttardómari þrengt þessi réttindi. Þá segja hópar, sem berjast fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Robers hefur hins vegar sagt sjálfur, að dómur réttarins í málinu Roe gegn Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur, jafngilti lögum í landinu og hann muni virða þau lög þrátt fyrir persónulegar skoðanir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert