Myrti dætur sínar þar sem hann taldi heiðri sínum ógnað

Rehmat Bibi, móðir stúlknanna fjögurra, sagði fjölmiðum sögu sína.
Rehmat Bibi, móðir stúlknanna fjögurra, sagði fjölmiðum sögu sína. AP

Fertugur Pakistani skar stjúpdóttur sína og þrjár dætur sínar á háls fyrir augum eiginkonu sinnar. Segist hann hafa framið ódæðisverkin vegna þess að elsta stúlkan hafi drýgt hór og hann hafi ekki viljað að yngri stúlkurnar hlytu sömu örlög. Mál þetta hefur valdið uppnámi í Pakistan og segja mannréttindasamtök að því aðeins muni draga úr slíkum „heiðursmorðum" að stjórnvöld fari að taka hart á þeim og beita þeim viðurlögum sem heimil eru.

Nazir Ahmed ræddi við fréttamann AP fréttastofunnar þegar verið var að flytja hann í fangelsi. Sagði Ahmed, að það eina sem hann sæi eftir væri að hann hefði ekki myrt manninn sem hann taldi vera elskhuga stjúpdóttur sinnar.

Hundruð stúlkna og kvenna eru myrt á ári hverju í Pakistan. Mannréttindanefnd Pakistans segir að meirihluta þeirra mála, sem komi fyrir rétt, sé lokið með sátt en þá greiða ættingjar morðingjanna fjölskyldum fórnarlambanna fébætur. Þetta er gert þrátt fyrir að í lögum, sem sett voru á síðasta ári, séu lágmarksviðurlög við slíkum glæp 10 ára fangelsi og þau þyngstu líflát með hengingu. Mannréttindasamtökin hafa skrásett 260 heiðursmorð á fyrstu 11 mánuðum ársins.

Rehmat Bibi, eiginkona Ahmeds, sagði fjölmiðlum frá því þegar hún vaknaði af svefni í síðustu viku við neyðaróp frá Muqadas, elstu dóttur sinni, og sá þegar Ahmed skar hana á háls með sveðju. Bibi fylgdist síðan með þegar maður hennar skar Bano, 8 ára, Sumaira 7 ára og Humaira 4 ára á háls. Á milli morðanna hótaði hann konu sinni, sem sat með 3 mánaða son þeirra í fanginu og bannaði henni að kalla á hjálp.

„Ég skalf af ótta. Ég vissi ekki hvernig ég gæti bjargað dætrum mínum," sagði Bibi í símaviðtali við AP. „Ég bað eiginmann minn að þyrma lífi dætra minna en hann sagði: Ef þú gefur frá þér hljóð drep ég þig. Alla nóttina lágu lík dætra minna fyrir framan mig. Ég vissi varla hvað hafði gerst."

Daginn eftir var Ahmed handtekinn. Fréttamaður AP tók við hann viðtal þegar verið var að flytja hann í fangelsi í borginni Multan í gær. Þar sagði Ahmed, að hann hefði myrt Muqadas vegna þess að hún hefði drýgt hór og dætur sínar vegna þess að hann vildi ekki að þær höguðu sér eins þegar þær yxu úr grasi.

Hann sagðist hafa keypt hníf og sveðju eftir hádegisbænir á föstudag og falið í húsi sínu. „Ég hélt að yngri stúlkurnar myndu gera það sem elsta systir þeirra hafði gert og því ætti að útrýma þeim. Við erum fátækt fólk og höfum ekkert til að verja nema heiður okkar."

Mannréttindanefndin hefur hins vegar eftir heimamönnum í þorpi Ahmeds, að Muqada hafi flúið frá eiginmanni sínum, sem misþyrmdi henni og neyddi hana til að vinna í múrsteinaverksmiðju. Muqadas var dóttir Bibi og bróður Ahmeds sem lést fyrir 14 árum. Ahmed giftist síðan ekkju bróður síns í samræmi við íslamskar hefðir.

Kamla Hyat, framkvæmdastjóri Mannréttindanefndar Pakistans, sagði við AP að litið sé á konur sem eign og þeir sem fremji glæpi gagnvart þeim fái ekki refsingu. „Þau skref sem stjórnvöld hafa stigið skipta engu raunverulegu máli."

Mannréttindasamtök í Pakistan segja að Pervez Musharraf, forseti Pakistans, sem sjálfur segist vera hófsamur múslimi, sé tregur til að breyta úreltum íslömskum lögum sem geri það erfitt að tryggja sakfellingu í nauðgunarmálum, málum þegar sýru er varpað í andlit kvenna og öðrum ofbeldismálum gegn konum. Lögregla sé oft treg til að rannsaka og gefa út ákæru í slíkum málum og líta á þau sem fjölskyldudeilur.

Lögreglan í Multan segist hins vegar munu rannsaka mál Ahmeds á næstu vikum og hann eigi yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur um morðin.

Ahmed segist ekki sjá eftir gerðum sínum. „Ég sagði lögreglunni að ég væri heiðvirður faðir og hefði drepið dóttur mína, sem olli mér smán, og hinar stúlkurnar þrjár. Ég vildi bara að ég fengi tækifæri til að útrýma stráknum sem hún hljópst á brott með og kveikja í húsinu hans."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert