Ömurlegasti dagur ársins í dag

Nú er það svart því rannsóknir breska vísindamannsins Cliff Arnall sýna að dagurinn í dag er sá mæðulegasti á árinu.

Arnall kennir heilsusálfræði við háskólann í Cardiff. Hann segist hafa sett upp reiknilíkan þar sem tekið er tillit til ólíkra þátta, niðurstaðan sé sú að sá mánudagur sem fellur næst 24. janúar ár hvert sé ömurlegasti dagur ársins. Fólk sé þá með í huga að hafa þurft að snúa aftur til vinnu eftir jólin, reikningar vegna hátíðahaldanna séu farnir að íþyngja fólki verulega, það sé farið að leggjast á sinni manna að þurfa að halda þau áramótaheit sem sett voru og svo spili auðvitað drungalegt veður rullu fyrir þá sem búi á norðurslóðum.

Rannsóknir Arnalls byggjast m.a. á viðtölum hans við mörg hundruð manns. En erum við eitthvað betur sett, að vita að dagurinn í dag er sá ömurlegasti á árinu? Auðvitað, segir Arnall. Þegar menn séu meðvitaðir um drungann eigi þeir auðveldara með að bregðast við honum. "Þú getur notað vitneskjuna sem tilefni til að gera breytingar. Hún getur hvatt fólk áfram," segir hann.

Og svo má auðvitað hugga sig við það að þegar ömurlegasti dagur ársins er liðinn þá kemur hann ekki aftur í bráð!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert