Rekinn út úr flugvél fyrir að segja sprengjubrandara

32 ára gamall Dani var rekinn út úr flugvél á Kastrupflugvelli í morgun og handtekinn eftir að hafa spurt vin sinn hvort hann hefði ekki örugglega munað eftir sprengjunni. Áhöfn vélarinnar heyrði hvað maðurinn sagði og kallaði lögreglu til. Flugvélin var á leið til Malaga á Spáni.

„Þetta átti að vera brandari en maður segir ekki svona brandara um þessar mundir," sagði Per Riddervold, talsmaður lögreglunnar á Kastrupflugvelli.

Ótti við hryðjuverk fer vaxandi í Danmörku vegna ofsafenginna viðbragða múslima víða um heim við skopmyndum, sem birtust í dönsku blaði af Múhameð spámanni.

Manninum og vini hans var vísað út úr vélinni. Sá sem ummælin viðhafði var handtekinn og yfirheyrður en síðan sleppt. Verði hann ákærður gæti hann átt yfir höfði sér allt að 2 ára fangelsi fyrir að viðhafa ólöglegar hótanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert