Ákæru á hendur Afgana sem snérist til kristni vísað frá og hann látinn laus

Dómstóll í Afganistan vísaði í dag frá ákæru á hendur manni sem snérist til kristni fyrir 16 árum og átti yfir höfði sér dauðadóm fyrir að hafa afneitað íslam. Sagði dómstóllinn að sannanir gegn manninum skorti. Hann verður látinn laus innan skamms.

Málinu hefur verið vísað aftur til saksóknara til frekari rannsóknar, en uns henni er lokið er maðurinn frjáls ferða sinna.

„Dómstóllinn hefur í dag vísað frá ákæru á hendur Abdul Rahman vegna skorts á upplýsingum og fjölda lögformlegra galla á málinu,“ sagði embættismaður við AP í dag.

Rahman var ákærður samkvæmt íslömskum lögum fyrir trúskipti. Hann tók kristni fyrir 16 árum þegar hann starfaði fyrir alþjóðleg, kristin samtök við að hjálpa afgönsku flóttafólki í Pakistan. Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur sætt síauknum þrýstingi erlendra leiðtoga - þar á meðal páfanum - til að láta Rahman lausan. Afganskir klerkar hafa dregið í efa rétt Karzais til að náða Rahman og segja að til uppreisnar kunni að koma ef Karzai skipti sér af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert