Lieberman tapaði í forkosningum demókrata

Joe Lieberman.
Joe Lieberman. AP

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Joe Lieberman ætlar að bjóða sig fram sem óháður í næstu þingkosningum en hann tapaði í gær forkosningum Demókrataflokksins þar sem valinn var frambjóðandi flokksins í Connecticut fyrir þingkosningar sem fara fram í nóvember. Lieberman, sem hefur setið á Bandaríkjaþingi í 18 ár og var varaformannsefni flokksins árið 2000, hefur stutt hernað Bandaríkjamanna í Írak og hlotið harða gagnrýni fyrir það í Connecticut.

Lieberman tapaði forkosningunum fyrir Ned Lamont, sem er nýliði í stjórnmálum en hann hefur nýtt sér óvinsældir hernaðararins í Írak og náð að velta Lieberman úr sessi.

Á fréttavef BBC segir, að þessi úrslit sýni bandarískum stjórnmálamönnum fram á, að stríðið í Írak sé orðinn pólitískur baggi. Kjósendur Demókrataflokksins séu mun óánægðari með hernaðaraðgerðirnar í Írak en repúblikanar og því gæti stuðningur frambjóðenda flokksins við Íraksstríðið orðið þeim fjötur um fót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert