Bloggari varð sænskum ráðherra að falli

Sænskur bloggari átti stóran þátt í því að Maria Borelius neyddist til að segja af sér embætti viðskiptaráðherra í Svíþjóð í gær eftir að hafa aðeins setið í átta daga á ráðherrastóli. Bloggarinn birti m.a. upplýsingar um tekjur Borelius og eignir sem aðrir fjölmiðlar tóku síðan upp.

Fram kom í síðustu viku, að Borelius, sem var kjörin á þing fyrir Hægriflokkinn, hafði ekki gefið laun, sem hún greiddi dagmæðrum á árunum 1990 til 2000, upp og þannig losnað við að greiða virðisaukaskatt. Borelius sagði að hún hefði neyðst til að gera þetta vegna fjárskorts; ella hefði hún ekki haft efni á að hafa börn sín hjá dagmæðrum.

Magnus Ljungkvist, sem starfar á skrifstofu Jafnaðarmannaflokksins í Stokkhólmi og heldur úti bloggsíðu í frítíma sínum, segir að sér hafi þótt skrítið að enginn fjölmiðill skyldi fylgja þessu máli eftir og sannreyna að Borelius hefði ekki haft efni á að greiða dagmæðrunum eins og lög gera ráð fyrir. Hann ákvað því að kanna málið sjálfur og útvegaði afrit af skattframtökum ráðherrans. Þá kom í ljós, að Borelius og Greger Larssons, eiginmaður hennar, höfðu samtals nærri 17 milljónir sænskra króna, um 160 milljónir íslenskra króna, í tekjur þennan áratug.

Ljungkvist birti upplýsingarnar á bloggsíðu sinni og daginn eftir tóku stóru fjölmiðlarnir í Svíþjóð málið upp.

Ljungkvist fékk í kjölfarið upplýsingar um að sumarhús Borelius og Larssons á Falsterbo í Svíþjóð væri raun skráð eign skúffufyrirtækis í skattaskjólinu Jersey á Ermarsundi. Ljungkvist kannaði málið og birti upplýsingarnar á bloggsíðunni og aftur komu stóru fjölmiðlarnir í kjölfarið.

Ljungkvist segir í samtali við Aftonblaðið, að hann hafi með þessu lagt stund á borgaralega blaðamennsku og hann voni að fleiri bloggarar fylgi í fótspor sín. Sjálfur ætli hann að halda áfram á þessari braut.

Hann segir aðspurður, að flokkspólitík hafi ekki ráðið för í þessu máli. „Ég hef aldrei notað bloggið mitt til að koma pólitískum áróðri á framfæri og ég geri miklar kröfur til mín um nákvæmni og að birta réttar upplýsingar. Ég get ekki skýlt mér á bak við neinn ábyrgðarmann og það sem stendur á bloggsíðunni minni, það stend ég við," segir hann.

Bloggsíða Ljungkvists

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert