Saddam Hussein tekinn af lífi í Írak

Stillimynd úr íraska sjónvarpinu þar sem sést þegar taka á …
Stillimynd úr íraska sjónvarpinu þar sem sést þegar taka á Saddam Hussein af lífi Reuters

Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, var tekinn af lífi í Írak í nótt. Vitni segja hann ekki hafa veitt neina mótspyrnu er hann var leiddur að gálganum og hengdur. „Hann sagði: Ég vona að þið sameinist og ég vara ykkur við því að treysta íranska stjórnarsamstarfinu því það er hættulegt. Þá sagðist hann ekki óttast nokkurn mann," sagði dómarinn Moneer Haddad, sem varð vitni að aftökunni. Með orðunum er Saddam talinn hafa átt við stjórn Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sem Saddam og stuðningsmenn hans segja leppstjórn sjíta í Íran.

Mowaffaq al-Rubaie, þjóðaröryggisráðgjafi Íraka, segir enga Bandaríkjamenn hafa verið á staðnum er aftakan fór fram en ekki hefur verið gefið upp hvar það var. „Við vonum að þessi stórfenglegi dagur verði dagur þjóðarsameiningar og frelsunar írösku þjóðarinnar," sagði hann. í viðtali við Al-Arabiya sjónvarpsstöðina. Þá sagði hann aftökuna hafa verið kvikmyndaða en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það hvort og þá hvenær upptakan verði gerð opinber.

Íraskir embættismenn segja Saddam einan hafa verið tekinn af lífi í nótt og að Barzan Ibrahim Hassan al-Tikriti, hálfbróðir hans og fyrrum yfirmaður írösku leyniþjónustunnar og Awad Ahmed al-Bandar al-Sadun, fyrrum yfirdómari íraska byltingardómstólsins, verði teknir af lífi að lokinni Eid al-Adha hátíðinni.

Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks.
Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert