Fiskuðu dádýr upp úr sjónum

Tveir breskir sjómenn frá Portreath í Cornwall voru á leið út til að vitja humargildranna sinna í gærmorgun er dádýr með fallega krónu synti hjá bátnum þeirra. „Fyrst hélt ég að þetta væri stór trédrumbur en svo sá ég fæturna hreyfast og áttaði mig á að þetta var dádýr,” sagði Chris Earl í samtali við dagblaðið Guardian.

Dýrið var á sundi fyrir utan strendur Cornwalls við Portreath og stefndi norður með ströndinni. Bresku dýraverndarsamtökin telja að dýrið hafi hugsanlega fallið fram af kletti í skógi sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Sjómennirnir snöruðu dýrið og komu því um borð í bátinn og settist annar þeirra á það á meðan þeir snéru til hafnar. Þar settu þeir dýrið í sendibíl og leystu það síðan úr haldi í Tehidy skógi.

Í Portreath var mikið rætt um fenginn, sjómenn ræddu sín á meðal að þetta væri í fyrsta sinn sem menn veiddu dádýr upp úr sjónum, þó rak einn þeirra minni til að hafa fiskað grisling upp úr flóanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert