Sprenging í gufuleiðslu olli skelfingu í New York

Einn lét lífið og að minnsta kosti tuttugu slösuðust, þar af tveir lífshættulega, er sprenging varð í gufuleiðslu í miðborg New York í gærkvöldi. Gígur myndaðist í götuna á Lexington Avenue við sprenginguna og gufa, leðja og grjót þeyttust í allar áttir. Rýma varð nálægar götur og Grand Central lestarstöðina um tíma vegna atviksins.

Yfirvöld segja ekki grun um hryðjuverk en töluverð skelfing greip um sig í nágrenni við slysstaðinn og sögðust margir hafa óttast að um hryðjuverk væri að ræða. "Það er ekki nokkur ástæða til að ætla að um neitt annað en bilun í tækjaúnaði hafi verið að ræða," sagði Michael Bloomberg, borgarstjóri New York á blaðamannafundi í gærkvöldi.

Pípan, sem sprakk, var 83 ára gömul en sjóðheit gufa liggur víða í leiðslum undir borginni og er hún m.a. nýtt til húshitunar. Ekki er ljóst hvað olli sprengingunni en talið er að kalt vatn hafi komist í pípuna eða hún rofnað af öðrum orsökum.

Árið 1989 létu þrír lífið í svipaðri sprengingu í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert