Rússar kafa á norðurpólnum

Tveir rússneskir smákafbátar lögðu í morgun af stað niður að hafsbotni á norðurpólnum. Þriggja manna áhöfn er í hvorum báti fyrir sig og verður kafað niður á 4,2 kílómetra dýpi. Rússar vonast til að þessi kafbátaleiðangur geri þeim kleift að sýna fram á, að hafsbotninn á þessum slóðum sé í raun hluti af landgrunni Rússlands.

„Við verðum að ákveða landamærin, nyrstu landamæri rússneska landgrunnsins," sagði Artur Tsjilingarov, sem stýrir leiðangrinum.

Rússar hyggjast einnig skilja eftir hylki, sem inniheldur fána Rússlands, á hafsbotninum til að gera tilkall til svæðisins með táknrænum hætti.

Í rannsóknarskipinu Akademík Fjodorov eru um 100 vísindamenn sem eiga að leita jarðfræðilegra vísbendinga um að neðansjávarhryggur, Lomonosov, sé hluti af landgrunni Síberíu og tilheyri því Rússlandi samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Heimskautssvæðið sem Rússar gera tilkall til er um 1,2 milljónir ferkílómetra, á stærð við Frakkland, Þýskaland og Ítalíu samanlagt. Talið er að á svæðinu séu allt að tíu milljarðar tonna af jarðolíu og -gasi. Hugsanlegt er að bráðnun íssins vegna loftslagsbreytinga verði til þess að hægt verði að nýta þessar auðlindir þegar fram líða stundir og nokkrar aðrar þjóðir hugsa sér gott til glóðarinnar.

Danir vonast til þess að geta sannað að Lomonosov-hryggurinn sé hluti af landgrunni Grænlands, ekki Síberíu. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Kanada leggja líka kapp á að verja hagsmuni sína á norðurskautinu. Kanadamenn ætla til að mynda að verja sem svarar 430 milljörðum króna í smíði og rekstur allt að átta varðskipa til að hafa eftirlit með svæðinu og Bandaríkjamenn ætla að fjölga varðskipum sínum á svæðinu úr þremur í fimm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert