Neysla á lífrænt ræktuðum mat að stóraukast í Bretlandi

Frá Lundúnum
Frá Lundúnum mbl.is/Ómar

Sala á lífrænt ræktuðum vörum jókst um 22% á síðasta ári í Bretlandi, og eiga framleiðendur orðið erfitt með að mæta eftirspurn. Bretar eru nú í þriðja sæti á heimsvísu á eftir Þjóðverjum og Ítölum hvað varðar neyslu á matvöru og öðrum lífrænt ræktuðum varningi, þar á meðal textíl- snyrti- og heilsuvörum.

Sala á lífrænt ræktuðum matvörum telur raunar ekki nema 1,6% af matvælasölu í landinu, en eftirspurnin hefur vaxi hratt að undanförnu og er svo komið að framleiðendur á t.a.m. lífrænt ræktuðu korni anna ekki eftirspurn og leita nú að birgjum erlendis. Þá seljast lífrænt ræktuð egg, þar sem hænur vappa um á búunum í stað þess að hírast í búrum, betur en hefðbundin egg í fyrsta sinn og virðast áhyggjur neytenda af velferð dýra vera að knýja fram breytingu á framleiðsluaðferðum á kjúklingabúum.

Bretar eyða nú 37 milljónum punda á viku eða um tveimur milljörðum punda árlega, rúmlega 250 milljörðum íslenskra króna, í lífrænar vörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert