Mikil spenna á Balí

Umhverfissinnar mótmæla í hefðbundnum klæðum á ráðstefnunni í Balí.
Umhverfissinnar mótmæla í hefðbundnum klæðum á ráðstefnunni í Balí. STRINGER/INDONESIA

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að mikil spenna sé á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí í Indónesíu þar sem fjallað er um grundvöll nýs samnings sem á að leysa Kyoto-sáttmálann af hólmi.

Segir Árni að einkum sé tekist á um hvort nefna megi það markmið, að hlýnun lofthjúps jarðar verði ekki meiri en 2 gráður umfram það sem var í upphafi iðnbyltingar. Það felur í sér að iðnríki dragi úr losun gróðurhúsaloftegunda um 25-40% fyrir árið 2020.

Árni segir, að umhverfisverndarsamtök vilji sjá skýrari skírskotun til þessara markmiða og að þau séu sett inn í meginhluta væntanlegs samnings en ekki bara í formála hans, eins og formaður ráðstefnunnar lagði til um helgina. Yfirlýsing hans hafi þó lofað góðu.

Árni segir þjóðirnar vera ósammála í þessum efnum og samkvæmt fréttum hafi Ástralir og Kanadamenn lagst gegn því að setja þessi markmið fram. Bandaríkjamenn hafi ekki sagt mikið enn. 

„ESB, Noregur og Ísland leggja hins vegar mikla áherslu á 2°C markmiðið og 20-40% samdrátt fyrir 2020, og að þróunarríki fái aðstoð við að aðlagast loftslagsbreytingum.“ segir Árni.

Árni segir að mörg þróunarríki taki undir þetta og það sé lykilatriði að iðnríki sýni að þau séu fær um að draga úr losun til að sannfæra þróunarríki um að gera hið sama.  Hann segir nánast alla nema Bandaríkin viðurkenna að til þess að þróunarríkin geti lagt sitt af mörkum þurfi þau aðstoð, bæði tæknilega og fjárhagslega.

„Til að sannfæra þróunarríkin um að iðnríkin séu heil í afstöðu sinni skiptir miklu máli að hin síðar nefndu gangi á undan með góðu fordæmi. Að öðrum kosti munu þróunarríki ekki samþykkja að taka á sig dýrar aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.“

Árni segir að á blaðamannafundi í dag hafi John Kerry, öldungadeildarþingmaður og demókrati, lagt áherslu á að straumurinn þyngist nú í Washington og Bandaríkjunum öllum í átt að róttækum og raunhæfum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þar í landi.

Markmið ráðstefnunnar sem er haldin nú á Balí er að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfi jarðar.  Á föstudag má búast við lokayfirlýsingu ráðstefnunnar og segir Árni, að þeim mun skýrari sem sú yfirlýsing verði, þeim mun auðveldari verði eftirleikurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert