Vöruflutningabílstjóri hélt konu nauðugri í sex mánuði

Katina Shaddix útskrifaðist af sjúkrahúsi í gær. Hún ræddi við …
Katina Shaddix útskrifaðist af sjúkrahúsi í gær. Hún ræddi við CNN í dag um það sem hún segir hafa verið 6 mánaða þrekraun. mbl.is

Hjálparbeiðni sem rituð var á vegg á almenningssalerni í Tennessee í Bandaríkjunum leiddi til handtöku vöruflutningabílstjóra á áningarstað í Georgíu þar sem lögregla fann konuna sem ritaði beiðnina. Konan, Katina L. Shaddix 24 ára, sagði manninn hafa barið sig og haldið sér gegn vilja sínum í sex mánuði.

Hún sagði lögreglu að hún hefði falið tússpenna í sokknum og skrifað meira en 30 skilaboð á salernum frá New York til Tennessee. Binford Aycock fann ein skilaboðin sem voru þessi: „Hleypir mér ekki út. Lemur mig, þetta er ekki grín!" þegar hann var að þrífa salerni við áningarstað síðastliðinn föstudag í McMinn-sýslu í Tennessee. Hann hringdi í neyðarlínu. Shaddix skrifaði einnig kennimerki bílsins, "Cannon-bíll 383". Lögreglumenn notuðu staðsetningarkerfi til að hafa uppi á viðkomandi bíl flutningafyrirtækisins Cannon. Lögreglumennirnir höfðu svo uppi á bílnum á laugardagsmorgun. Shaddix, sem sagðist ekki eiga fjölskyldu, var á sjúkrahúsi þar til í gær. Þegar lögreglumenn frelsuðu konuna úr haldi mannsins gat hún hvorki gefið upp fæðingardag sinn né kennitölu. Hún var með innvortis meiðsl, höfuðkúpan var brákuð og hún var marin og sár um allan líkamann. Shaddix sagði lögreglumönnum að hún hefði hitt manninn á biðstöð vöruflutningabíla í Washington-ríki fyrir u.þ.b. ári. Hún hefði ákveðið að ferðast með honum. Fyrir um hálfu ári hefði hún viljað slíta samvistum við manninn. Hún segir hann hafa barið sig og haldið sér nauðugri, elt sig á salerni og beðið eftir sér fyrir utan svo hún stryki ekki. Vöruflutningabílstjórinn Shannon E. Jones, 26 ára, frá Dehli í New York, er í haldi lögreglu vegna líkamsárásar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert