BBC ritskoðar jólalag Pogues

Hljómsveitin Pogues.
Hljómsveitin Pogues.

Breska ríkisútvarpið hefur ritskoðað jólalagið Fairytale of New York, sem írska hljómsveitin Pogues gaf út ásamt söngkonunni Kristy MacColl fyrir 20 árum. Það er enska orðið „faggot“, sem útleggst sem hommi á íslensku, sem fór fyrir brjóstið á stjórnendum BBC.

Í laginu, sem nýtur mikilla vinsælda í Bretlandi í kringum jólin, syngur MacColl eftirfarandi línu: „You scumbag, you maggot/You cheap lousy faggot,“ er hún á í orðskaki við söngvara Pogues, Shane MacGowan, í laginu.

Líkt og hefur verið undanfarin ár þá berst lagið um efsta sætið á jólalagavinsældarlistanum. Þá hefur lagið einnig verið valið besta jólalag allra tíma í nokkrum könnunum í Bretlandi.

Í yfirlýsingu sem breska ríkisútvarpið sendi frá sér kemur fram að BBC Radio 1 leiki nú ritskoðaða útgáfu af laginu, þar sem ofangreint orð hefur verið tekið út. Ástæðan er sú að mörgum útvarpshlustendum gæti þótt orðið vera særandi. Talsmaður BBC bendir hinsvegar á að orðið hafi ekki verið klippt út, eða píphljóð sett yfir, heldur lækki í söngkonunni þegar hún syngur orðið.

Kirsty MacColl lést í sjóslysi skammt undan strönd Mexíkó fyrir sjö árum. Móðir hennar sagði í viðtali á Radio 5 á BBC að bannið væri í raun alveg fáránlegt. Hún bendir á að nú á dögum heyrist blótsyrði út um víðan völl af tilefnislausu. Hvað þetta lag varði þá fjalli lagið um þessar tvær persónur sem einfaldlaga tali með þessum hætti.

Lagið má heyra hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina