„Í bráðri hættu vegna ofneyslu á transfitusýrum“

Djúpsteikingarfeiti inniheldur gjarnan transfitusýrur.
Djúpsteikingarfeiti inniheldur gjarnan transfitusýrur. mbl.is/Brynjar Gauti

Ísland er í 8. sæti á lista 24 þjóða rannsóknar á magni transfitusýru í völdum fæðuflokkum. Engar reglur eru í gildi um leyfilegt magn hertrar fitu í matvælum og engar reglur eru til um merkingar matvöru varðandi magn þessarar fitu. Neytendum er því ekki gefinn kostur á að forðast transfitusýrur þó að vilji sé fyrir hendi.

Þetta kemur fram í tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Fyrsti flutningsmaður er Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en einnig standa að baki Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir og Þuríður Bachman, þingmenn Vinstri grænna.

Á bekk með Bandaríkjunum

Í þingsályktunartillögunni er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gert að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.

Í greingerð með tillögunni segir að neysla á transfitusýrum auki líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en neysla á mettaðri fitu, sem þó er vel þekktur áhættuvaldur fyrir slíka sjúkdóma. Að auki auki neysla hertrar fitu/transfitusýra hættu á offitu og sykursýki tvö. Líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eru þá taldar aukast um 25% ef neytt er fimm grömmum af hertri fitu á dag. Auðvelt sé að fá margfalt það magn eingöngu í einni máltíð.

Þá er vitnað í ofangreinda rannsókn sem Steen Stender, yfirlæknir á Gentofte Hospital í Danmörku, framkvæmdi á magni transfitusýra í völdum fæðuflokkum; skyndibita, kexi, kökum og örbylgjupoppi.

Efst á lista Stender er Ungverjaland með 42 grömm í hverjum hundrað grömmum. Þar fyrir neðan eru Tékkland, Pólland, Búlgaría og Bandaríkin. Í áttunda sæti er Ísland með 35 grömm í hverjum hundrað grömmum, þ.e. einu grammi minna en Bandaríkin.

Þess má geta að Norðurlandaþjóðirnar skipa neðstu sæti listans og Danmörk sker sig úr í neðsta sæti með 0,4 grömm á hver hundrað grömm. „Það vekur óneitanlega athygli að Ísland skuli raða sér á bekk með Austur-Evrópuþjóðum og Bandaríkjamönnum í þessum efnum og tróna á toppnum þegar Norðurlandaþjóðirnar eru skoðaðar,“ segir í greinargerðinni og einnig að yfirlæknirinn fullyrði að transfitusýrur séu ágætar í skóáburð og koppafeiti en eigi ekkert erindi í matvæli sem ætluð eru til manneldis.

Sambærilegar reglur og í Danmörku

Bent er á að Danir settu árið 2003 reglur sem kveða á um að það feitmeti sem reglurnar ná til megi ekki innihalda meira en tvö grömm af transfitusýrum í hverjum hundrað grömmum af fitu. Danmörk er fyrsta landið í heiminum til að setja takmarkandi reglur um iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum og gilda þær einnig um innflutt matvæli. Brot á reglunum geta kostað tveggja ára fangelsi.

Bandaríkjamenn hafa valið þá leið að setja reglugerð um merkingar á matvælum þannig að hlutfall transfitusýra/hertrar fitu komi skýrt og greinilega fram á umbúðum og síðan er neytendum gert að velja hvort þeir neyta matvælanna eða ekki.

Með þingsályktunartillögunni er því beint til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja reglur, sambærilegar þeim dönsku, „enda má ætla að fjölmargir Íslendingar séu í bráðri hættu vegna ofneyslu á transfitusýrum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær