295.000 dóu í náttúruhamförum

Forsetahöllin á Haítí hrundi í jarðskjálftanum, sem þar reið yfir …
Forsetahöllin á Haítí hrundi í jarðskjálftanum, sem þar reið yfir fyrir tæpu ári. Reurters

Alls létu 295 þúsund manns lífið af völdum náttúruhamfara á síðasta ári, að mati Munich Re, stærsta endurtryggingafélags heims.  Tjón vegna hamfaranna er áætlað um 130 milljarðar dala, að sögn félagsins. 

Er þetta mesti fjöldi, sem farist hefur af völdum náttúruhamfara á einu ári síðan árið 1983, þegar um 300 þúsund manns létu lífið, flestir af völdum hungursneyðar í Eþíópíu.

„Fjöldi náttúruhamfara, sem tengist veðri, og methiti bæði um allan heim og á ýmsum svæðum, benda enn frekar til þess að breytingar séu verða á loftslaginu," segir tryggingafélagið. 

Alls voru skráðar 950 náttúruhamfarir á síðasta ári. Tryggð tjón námu um það bil 37 milljörðum dala.

Mest manntjón varð í jarðskjálftanum, sem reið yfir Haítí í janúar en þá fórust um 222.570 manns. Þá létu 56 þúsund lífið í Rússlandi af völdum gríðarlegs hita og skógarelda.  2700 fórust í jarðskjálfta í Kína í apríl, 1760 í flóðum í Pakistan á tímabilinu frá júlí til september og 1470 létu lífið í flóðum í Kína í ágúst.

Kostnaður tryggingafélaga vegna jarðskjálftans á Haítí var ekki mikið vegna þess að fæst þeirra húsa, sem þar hrundu, voru tryggð. Jarðskjálftinn í Kína í febrúar var hins vegar kostnaðarsömustu hamfarirnar. Tjónið þar var metið á 30 milljarða dala og þar af greiddu tryggingafélög um 8 milljarða dala í bætur. 

Þá var tjón í jarðskjálftum á Nýja-Sjálandi í haust metið á 3,3 milljarða dala en þar lét enginn lífið.  

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 23. apríl

Mánudaginn 22. apríl

Sunnudaginn 21. apríl